29.6.2025 11:18

PPP-skjölin og ríkisútvarpið

Helgi Seljan fær að nýju aðgang að ríkissjónvarpinu og flytur alvöruþrunginn þá uppljóstrun sína að PPP hafi starfað með sérstökum saksóknara og slitastjórnum, og að það sé hneyksli að þessi gögn séu á flakki.

Dómsmálaráðuneytið birti föstudaginn 27. júní bréf sem ráðuneytinu barst 19. maí frá embætti héraðssaksóknara vegna fjölmiðlaumfjöllunar um gagnaþjófnað úr kerfum sérstaks saksóknara. Er þar vísað til frásagnar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 29. apríl 2025 sem reist var á trúnaðarskjölum úr fórum fyrirtækis sem nefndist PPP og er síðan gjarnan talað um PPP-skjölin. Hefur Helgi Seljan rætt þau í fleiri þáttum í ríkissjónvarpinu eftir að hann var endurráðinn þangað. Sjá meðal annars hér.

Í löngu og tæknilegu svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara segir: „Undirritaður telur að umrædd gögn hafi verið afrituð á starfstíma fyrrum starfsmanna embættisins sem hafa verið til umfjöllunar, þ.e. á tímabilinu 2009 til fyrri hluta árs 2012.“ Hér er um að ræða trúnaðargögn sem snertu viðskiptavini Glitnis, síðar Íslandsbanka.

Fyrir þá sem fylgst hafa með stjórnmálum og skrifað um þau reglulega frá því á þessum tíma er mikilvægt að fá þessa formlegu staðfestingu. Hún kemur heim og saman við það mat að fyrir kosningar 2013, 2016 og 2017 hafi þeir sem lögðu sig sérstaklega fram um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og formann hans haft aðgang að trúnaðargögnum og matreitt þau eins og best féll að málstað þeirra. Leynd hvíldi yfir heimildarmönnum.

Screenshot-2025-06-29-at-11.16.15Skjámynd af Helga Seljan í Kastljósi 18. júní 2025.

Til að viðhalda trausti og trúnaði viðskiptavina sinna krafðist Íslandsbanki lögbanns á birtingu gagna frá slitastjórn Glitnis haustið 2017. Stóð bannið í rúmt ár þar til hæstiréttur dæmdi bannið ólögmæta takmörkun á tjáningarfrelsi fjölmiðla.

Nú eru þessi gögn aftur fréttaefni í ríkisútvarpinu, ekki endilega vegna þess sem í þeim stendur heldur vegna þess hvernig þau urðu til. Þá beinast spjótin ekki lengur að þeim sem þótti ástæða til að gera grunsamlega af pólitískum ástæðum á árum áður heldur að réttarvörslukerfinu og þeim sem misnotuðu það til að afla sér trúnaðarupplýsinga á ólögmætan hátt.

Blaðamenn, til dæmis Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson, hljóta að hafa þekkt uppruna gagnanna sem þeir sögðust nýta í þágu almannahagsmuna og lýðræðislegra stjórnarhátta.

Nú kenna blaðamenn þessi trúnaðargögn ekki lengur við Glitni heldur nota nýtt nafn, PPP-skjölin. Helgi Seljan fær að nýju aðgang að ríkissjónvarpinu og flytur alvöruþrunginn þá uppljóstrun sína að PPP hafi starfað með sérstökum saksóknara og slitastjórnum, og að það sé hneyksli að þessi gögn séu á flakki.

Í huga þeirra sem fylgst hafa með því hvernig blaðamenn, þeirra á meðal Helgi Seljan, hafa nýtt sér þessi gögn frá því fyrir þingkosningar 2013, vakna allt aðrar spurningar en þær sem Helgi Seljan spyr þegar hann hneykslast á tilvist gagnanna.

Könnuðu blaðamenn ekki uppruna og áreiðanleika heimilda sinna þegar þeir nýttu sér þessi gögn í pólitískum tilgangi? Er Helgi Seljan að hefna sín á PPP-mönnum? Eða á réttarvörslukerfinu? Hefur eitthvað gerst í samskiptum Helga og PPP-manna sem gefur tilefni til þessarar kollsteypu?

Hvernig væri að rannsaka þessar tilgátur og birta niðurstöðuna í Kveik?