30.1.2020 9:54

Popúlistar í nafni sósíalisma

Æðstu stjórnvöld landsins, alþingi og ríkisstjórn, eiga aðeins eitt úrræði til forvarnar og það er að lögfesta rammann sem settur var með lífskjarasamningnum

Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), segir í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann á Morgunblaðinu, í dag (30. janúar:

„Þessi svokallaða nýja forysta innan verkalýðsforystunnar komst til valda út á lýðskrum. Þegar hún komst til valda, eða lagði af stað í samninga, hafði hún enga framtíðarsýn, sem birtist í því sem er að gerast núna. Það kemur þó á óvart hversu hratt þetta er að framkallast. [...]

Vandamálið er popúlisminn sem ræður ríkjum í verkalýðshreyfingunni á Íslandi í dag. Þar skortir öll tengsl við veruleikann eða heilbrigða skynsemi. Skynsemisraddir innan verkalýðshreyfingarinnar eru kveðnar niður. Það þorir enginn að fara fram og segja sína meiningu, eða taka málefnalega rökræðu um vandamálið eða afleiðingarnar, af því að það er ráðist á manninn. Þessi forysta kemst áfram með alla vitleysuna á þessari kúgun gagnvart þeim sem ætla að hafa aðra skoðun á hlutunum.“

Þetta eru þung orð um alvarlega stöðu. Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Ef til vill er óvarlegt að tala um kreppu hér á landi, en mörg fyrirtæki eru í erfiðri stöðu og mega ekki við því að reksturinn þyngist. Aukinn kostnaður vegna hærri launa getur hæglega knúið fyrirtæki til uppsagna eða jafnvel veitt þeim náðarhöggið.[...]

Laun hjá hinu opinbera verða að vera í takti við það sem gerist úti á almennum vinnumarkaði. Hið opinbera getur ekki hleypt öllu í bál og brand með því að ganga lengra en gert hefur verið í einkageiranum. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“

Það eru einfaldar staðreyndir af þessu tagi sem popúlistarnir vilja ekki viðurkenna. Þeir ráðast á manninn í stað þess að horfast í augu við veruleikann.

P5Q3QE3V4ZDQBAOIYBQCFK7RAIHugo Chavez beitti sósíalískum popúlisma til að ná völdum í Venezúela. Nokkrum árum eftir andlát hans er ástandið þannig að þeim fjölgar stöðugt hér á landi sem flýja örbirgðina og óstjórnina í Venezúela.

Hér er ríkjandi viðhorf að í stað krafna um forvarnir skuli ýtt undir reiði- og hneykslunarbylgju eftir að allt er orðið um seinan. Þá er hafin leit að sökudólgnum og spjótunum jafnan beint að ríkisvaldinu. Skammirnar dynja á stjórnmálamönnum en höfuðhvatamenn vandræðanna fá að vera í friði eða láta lítið fyrir sér fara.

Á líðandi stundu reynir svo mjög á burðarstoðir efnahags- og atvinnulífsins að ekki er skynsamlegt að auka þungann enn frekar. Ytri aðstæður lofa ekki góðu, nægir að nefna tvennt: brotthvarf loðnu og ferðabann í Kína vegna kórónaveirunnar.

Æðstu stjórnvöld landsins, alþingi og ríkisstjórn, eiga aðeins eitt úrræði til forvarnar og það er að lögfesta rammann sem settur var með lífskjarasamningnum. Á þann hátt má skapa fótfestu sem er bráðnauðsynleg á þessum óvissutíma.

Popúlistar leita að veikasta hlekknum í von um stundarávinning sem nýta megi til sóknar í meiri völd. Ítalski popúlistinn Matteo Salvini sótti fram í krafti andstöðu við farandfólk. Hann náði vissulega stundarárangri, skapaði síðan pólitíska ringulreið í von um meiri völd en var hafnað í átökum á þingi og nú í kosningum.