Popúlistar hér og þar
Að sumu leyti minnir söfnuðurinn sem kom saman á Austurvelli föstudaginn langa á það sem kann að gerast í frönsku forsetakosningunum eftir viku.
Föstudaginn langa, af öllum dögum, var efnt til mótmælafundar á Austurvelli með prest í þjóðkirkjunni sem ræðumann ásamt þingmanni Pírata. Fundurinn hafði að markmiði að úthrópa fjármálaráðherra og bankasýsluna vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Þegar farið er í saumana á máli fundarmanna er niðurstaðan að reiðin snúi að því hverjir keyptu bréf ríkisins og aðferðinni sem var höfð við að gefa þeim kost á því. Þá hefur vaknað spurning um hvort allir kaupendur hafi verið í góðri trú, óeðlileg tengsl hafi ef til vill verið milli þeirra og söluráðgjafa. Fjármálaeftirlitið rannsakar nú þennan þátt málsins. Ríkisendurskoðun gerir úttekt á málinu í heild. Gagnrýnendur finna að þeirri aðferð og vilja sérstaka rannsóknarnefnd alþingis. Ekkert hefur í raun verið útilokað í því efni.
Allt er þetta mikið alvörumál og reynslan af sölu ríkiseigna hefði átt að minna á verulega pólitíska áhættu svo nærri sveitarstjórnarkosningum. Samstaða allra flokka á þingi um aðferðafræðina stuðlaði örugglega að grandaleysi þeirra sem áttu síðasta orðið um dagsetningu sölunnar.
Nálægð kosninganna er hins vegar of freistandi fyrir Sósíalistaflokk Íslands og aðra sem hann fékk til að standa að fundinum föstudaginn langa.
Það grænkar í vætunni í Fljótshlíðinni, myndin tekin að morgni páskadags 17.apríl 2022, utan dyra mátti heyra í hrossagauknum fara um loftin.
Að sumu leyti minnir söfnuðurinn sem kom saman á Austurvelli föstudaginn langa á það sem kann að gerast í frönsku forsetakosningunum eftir viku, 24. apríl, þegar Emmanuel Macron og Marine Le Pen keppa til úrslita.
Hér er leitað er að samnefnara í stjórnarandstöðu til að ná sér niðri á ríkisstjórninni, án þess þó að flytja átakaflötinn inn á hefðbundin skil á milli hægri og vinstri. Fundið er mál sem sameinar á útifundum en skiptir í raun engu þegar sinnt er raunhæfum verkefnum. Athyglinni er beint að einstaklingum og ýtt undir óvild í þeirra garð.
Gjarnan er litið á Þjóðhreyfingu Le Pen sem hægri sinnað stjórnmálaafl. Þá er aðeins tekið mið af stefnunni í útlendingamálum sem ekki ber hátt í kosningabaráttunni núna. Le Pen höfðar á hinn bóginn sterkt til þeirra sem minna mega sín í kjósendahópi gamla trotskíistans Jean-Luc Mélenchons sem fékk rúmlega 20% í fyrri umferð kosninganna en bað kjósendur sína lengstra orða að styðja ekki Le Pen í seinni umferðinni.
Ólíklegt er að allir kjósendur hans fari að þessum ráðum. Le Pen vill eins og vinstrimenn minnka samskiptin við NATO og ESB og hefur horn í síðu Bandaríkjamanna, hún vill meiri verndarstefnu og ríkisrekstur. Öflugt ríkisvald sem stendur vörð um fátæka. Hún vill eins og vinstrisinnar lækka eftirlaunaaldur í 60 ár úr 62 ár, Macron vill hækka hann í 65 ár.
Að hætti popúlista nýtir Le Pen sér það til framdráttar sem hún telur best duga hverju sinni. Fái hún drjúgan skerf af 20% sem kusu Mélenchon sigrar hún Macron og fer síðan sínu fram að kosningum loknum.
Sósíalistarnir hér kalla aðra til útifundar í von um stundarvinsældir, nái þeir markmiðinu gerist það sem við sjáum nú í Eflingu-stéttarfélagi.