14.2.2019 10:34

Pompeo á Íslandi – 11 ár frá síðustu heimsókn

Augljóst er að Mike Pompeo lætur ákvarðanir í stjórnartíð Obama ekki takmarka ferðafrelsi sitt.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur í stutta heimsókn til Íslands á morgun, föstudaginn 15. febrúar. Nú eru tæp 11 ár frá því að bandarískur utanríkisráðherra sótti landið heim, sé rétt munað. Það var Condoleezza Rice, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Geroge W. Bush, sem kom hingað 30. maí 2008. Hitti hún Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í Höfða og síðan Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Árið 1978 samþykkti Bandaríkjaþing svonefnda Pelly-breytingartillögu við fiskveiðilöggjöf sína til að refsa eða veita þeim þjóðum aðhald sem t.d. stunda hvalveiðar. Þessu ákvæði var beitt gegn hvalveiðum Íslendinga í stjórnartíð Obama, fyrst árið 2011. Leiddi það meðal annars til þess að háttsettir bandarískir embættismenn hættu að leggja leið sína til Íslands. Var sagt að John Kerry hefði í tíð sinni sem utanríkisráðherra verið bannað að heimsækja landið.

Augljóst er að Mike Pompeo lætur ákvarðanir í stjórnartíð Obama ekki takmarka ferðafrelsi sitt.

31713697837_1f77a80e15_hGuðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo í Washington 7. janúar 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði með Mike Pompeo í bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington 7. janúar 2019 og er ekki ólíklegt að þar hafi verið ákveðið að Pompeo ætti ég hér stutta viðdvöl á heimferð sinni frá nokkrum ríkjum í austurhluta Evrópu þar sem hann hefur verið í vikunni.

Í maí nk. taka Íslendingar við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum og gegna henni næstu tvö ár. Miðað við þróun mála á norðurslóðum og vaxandi hervæðingu þar að frumkvæði Rússa beinist athygli stórvelda heims æ meira að þessum heimshluta.

Í byrjun vikunnar birti leyniþjónusta norska hersins hættumat sitt og þar er vakið máls á því að í skjóli Rússa færi Kínverjar sig ávallt nær norsku landamærunum.

Miðað við að kínversk herskip hafa á undanförnum árum tekið þátt í flotaæfingum með Rússum á Miðjarðarhafi, Svartahafi og Eystrasalti er ekki ólíklegt að næst láti þau að sér kveða hér fyrir norðan Ísland eða í nágrenni landsins á Noregshafi.

Þetta eru í raun byltingarkenndar breytingar sem Bandaríkjamenn hafa til dæmis svarað með því að virkja Atlantshafsflota sinn, 2. flotann, að nýju. NATO lætur sig Norður-Atlantshafið og norðurslóðir meira varða nú en gert hefur verið í 30 ár.