16.10.2023 9:18

Pólverjar skipta um stjórn

Andstæður milli stjórnar og stjórnarandstöðu hafa magnast í Póllandi á undanförnum misserum og kosningabaráttan bar þess skýr merki. 

Donald Tusk, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Póllandi, sagði að loknum þingkosningum þar sunnudaginn 15. október að dagar ríkisstjórnar Laga- og réttlætisflokksins (PisS) væru taldir. Hann boðaði þar með stjórnarskipti eftir að PiS hefur farið með völd í landinu í tvö kjörtímabil.

Metkjörsókn var 72,9%, jafnvel meiri en árið 1989 (62,7%) þegar pólskir kjósendur losuðu sig undan stjórn kommúnista.

Sé litið á fylgi einstakra flokka er Laga- og réttlætisflokkurinn enn stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Var honum spáð 198 þingsætum en fékk 235 í kosningunum 2019. Flokki Tusks, Borgaravettvangi, var spáð161 þingsæti en hafði 134.

Þegar þessi kosningaspá lá fyrir sagðist Donald Tusk, sem gamall íþróttamaður, aldrei hafa orðið eins ánægður með að lenda í öðru sæti. Líkur eru á að hann myndi þriggja flokka stjórn með 248 þingmenn að baki sér af 460 þingmönnum í neðri deild pólska þingsins, Sejm.

Þrír stjórnarandstöðuflokkar: Miðjuflokkurinn Borgaravettvangur (31% atkv), mið-hægri Flokkur þriðju leiðarinnar (13,5%) og Vinstriflokkurinn (8,6%) gengu til kosninganna með fyrirheiti um að starfa saman í ríkisstjórn hlytu þeir til þess meirihluta.

AP23288389145222Donald Tusk verðandi forsætisráðherra Póllands.

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi PiS, sagði framtíðina óljósa þegar kosningaspáin birtist en fagnaði því að flokkur sinn væri stærstur, 36,6% en 2019 hlaut flokkurinn 44%.

Andrzej Duda, forseta Póllands, er skylt að fela leiðtoga stærsta flokksins að reyna fyrst stjórnarmyndun. Engar líkur eru á Jaroslaw Kaczynski hafi erindi sem erfiði í tilraun til að ná saman þingmeirihluta að baki stjórn flokks síns.

Andstæður milli stjórnar og stjórnarandstöðu hafa magnast í Póllandi á undanförnum misserum og kosningabaráttan bar þess skýr merki. Stjórnarandstæðingar saka PiS um að hverfa frá lýðræðislegum gildum. Boðuðu þeir endalok lýðræðislegra stjórnarhátta fengi flokkurinn umboð í þriðja sinn til að fara með stjórn landsins. Þetta væru örlagaríkustu kosningar í landinu frá því að kommúnistum var ýtt til hliðar.

Eftir átta ár í stjórn glímir PiS við ásakanir um spillta stjórnarhætti. Í kosningabaráttunni komst upp um embættismenn sem höfðu selt um 250.000 vegabréfsáritanir til dvalar á Schengensvæðinu. Þá hefur verið hart barist um rétt til þungunarrofs, stöðu dómstóla, stjórn ríkissjónvarpsins, korninnflutning frá Úkraínu og samskiptin við ESB. Deilur PiS við ESB hafa leitt til þess að lokað hefur verið að greiðslur úr sjóðum sambandsins til Póllands.

Undir lok kjörtímabilsins ákvað ríkisstjórn PiS að leggja fjórar spurningar sem talið var að kæmu stjórnarandstöðunni illa undir dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum. Undir 50% kjósenda tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og reyndist hún þar með marklaus.

Það hefur með öðrum orðum fjarað undan PiS. Flokkurinn á ekki lengur erindi í stjórn Póllands þótt enn sé hann stærsti stjórnmálaflokkurinn. Breytingin verður ekki aðeins mikil í Póllandi heldur einnig innan Evrópusambandsins.