Pólitískar milljónir í kosningum
Ekki er útilokað að nýja kerfið til að fjármagna stjórnmálastarf með skattfé kalli á fleiri framboð en ella væri. Von um meira fylgi en 2,5% er jafnframt von um styrk til fjögurra ára úr ríkissjóði.
Hér var ákveðið fyrir nokkrum árum að auka framlög skattgreiðenda til stjórnmálaflokka í þeim tilgangi að minnka áhrif auðmanna að stefnumótun þeirra. Þetta minnkaði grasrótarstarf flokkanna sem áður lögðu sig meðal annars fram um að rækta tengsl við flokksmenn í því skyni að innheimta af þeim félagsgjöld.
Áður en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók af skarið um stjórnarslit og gerði tillögu um þingrof snerust umræður meðal annars um það í netheimum að ekki yrði gengið til kosninga fyrr en í fyrsta lagi eftir þann tíma á næsta ári þegar ákveðið hefði verið hvað stjórnmálaflokkarnir fengju í sinn hlut úr ríkissjóði það árið.
Þessar vangaveltur áttu ekki við neitt annað að styðjast en þann hugsunarhátt sem verður til þegar menn lifa í stöðugri bið eftir að þeir fái eitthvað greitt úr ríkissjóði. Stjórnmálaflokkar komast á ríkisjötuna fái þeir 2,5% eða meira greiddra atkvæða. Einn flokkur, Sósíalistaflokkurinn, hefur lifað á slíkum greiðslum á þessu kjörtímabili þótt hann eigi ekki neinn þingmann.
Ekki er útilokað að nýja kerfið til að fjármagna stjórnmálastarf með skattfé kalli á fleiri framboð en ella væri. Von um meira fylgi en 2,5% er jafnframt von um styrk til fjögurra ára úr ríkissjóði.
Víða um lönd eru reglur til að takmarka áhrif auðmanna á lýðræðislegar ákvarðanir. Sætti auðmenn sig ekki við að hlíta þeim finna þeir leiðir í kringum þær.
Elon Musk og Donald Trump.
Þetta birtist til dæmis núna vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum þegar auðugasti maður heims, Elon Musk, gerðist stuðningsmaður auðmannsins Donalds Trumps í baráttu hans við Kamölu Harris um bandaríska forsetaembættið.
Musk hefur gefið milljónir dollara til kjósenda í sveifluríkjunum svonefndu, þar sem atkvæðasveifla í einu ríki getur ráðið heildarúrslitum í hópi kjörmanna. Ríkin eru sjö: Arizona, Georgía, Michigan, Nevada, Norður- Karólína, Pennsylvanía og Wisconsin. Musk greiðir einhverjum sem skrifar undir bænaskrá á vegum pólitísks aðgerðahóps hans milljón dollara.
Í fjölmiðlum hafa menn velt fyrir sér hvað Musk vilji fá í staðinn fyrir stuðning sinn.
Helsta niðurstaðan er að Musk krefjist minna regluverks eða aukins svigrúms á sviðum sem skipta miklu fyrir viðskiptaveldi hans. Kröfur í þessa veru birtast í auglýsingum Musks á samfélagsmiðli hans X og á Facebook þar sem hann auglýsir fyrir hundruð milljóna dollara. Þar er Trump lofaður í bak og fyrir. Musk vill frelsi til að haga fjölmiðlun sinni og athöfnum almennt eftir eigin höfði.
Andstæðingar Trumps og Musks segja aðferðir þeirra stangast á við viðurkenndar hugmyndir um lýðræði, jafnræði og sanngjarna dreifingu auðs. Þær stangast örugglega á við það sem þorri Íslendinga vill sjá þegar kosið er.
Hagnaður Tesla, fyrirtækis Musks, hækkaði í vikunni og hann unir glaður við sitt.