4.8.2023 10:34

Pólitískar lygar

Allir trúverðugir fjölmiðlar beita ritstjórnarvaldi gegn áreitni og augljósum blekkingum. Þarna er oft um grá svæði að ræða, matið getur því orðið flókið.

Meta, eigandi Facebook og fleiri samfélagsmiðla, hefur tugi þúsunda manna í vinnu til að bregðast við kvörtunum frá lesendum miðlanna vegna rangfærslna og áreitni. Að eigin frumkvæði miðlanna er fjarlægt efni sem fellur ekki að ritstjórnarstefnu eigendanna.

Birtingarreglurnar eru mismunandi eftir löndum eða ríkjahópum. Þar er oft um árekstur menningarheima að ræða. Múslímaríki heimta til dæmis vernd trúarbragða en vestræn lýðræðisríki vilja standa vörð um mannréttindi.

Allir trúverðugir fjölmiðlar beita ritstjórnarvaldi gegn áreitni og augljósum blekkingum. Þarna er oft um grá svæði að ræða, matið getur því orðið flókið. Til að skýra að matið sé ekki alltaf auðvelt skulu tekin dæmi úr tveimur aðsendum greinum í Morgunblaðinu í dag (4. ágúst). Greinarnar birtast á sömu opnu í blaðinu og eru eftir eldri borgarana Ole Anton Bieltvedt sem skrifar um Ísland, evruna og ESB og Werner Rasmusson sem harmar hve íslensk stjórnvöld taka einarða afstöðu gegn hernaði Rússa í Úkraínu.

Ole Anton vill að Íslendingar semji um aðild að ESB og taki síðan afstöðu til samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ljósi aðildarviðræðnanna 2009 til 2013 og síðari ákvarðana gefur þetta ranga mynd. Strax árið 2009 varð ljóst að um aðlögunarviðræður við ESB yrði að ræða en ekki samningaviðræður um íslenskar séróskir. Núverandi stefna allra flokka er að fyrst verði stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan lögð fram ESB-aðildarumsókn, samþykki meirihluti þjóðarinnar það. Fyrir aðild verður einnig að breyta stjórnarskránni.

Screenshot-2023-08-04-at-10.32.43

Werner Rasmusson harmar að íslensk stjórnvöld hafi „nú ákveðið að blanda sér í deilu Rússlands og Úkraínu með öðrum hætti en tíðkast hjá hlutlausum ríkjum“. Af þessum orðum má ráða að Werner telji Ísland hlutlaust ríki þótt það hafi verið eitt af stofnríkjum NATO árið 1949 og því séu tæp 75 ár síðan Ísland hætti endanlega að vera hlutlaust. Werner telur einnig að „yfirlýst hlutleysi okkar“ hafi „efalítið“ ráðið úrslitum um að forsetar Rússlands og Bandaríkjanna hittust hér 1986. Minni öryggisgæslu hafi þurft um þá tvo en fund tæplega 50 þjóðar- og stjórnarleiðtoga hér í maí 2023 enda hefðum við ekki verið í Schengen-samstarfinu 1986!

Allir hafa vissulega rétt til að segja og birta hvaða vitleysu sem þeim dettur í hug. Fjölmiðlar sem vilja njóta trausts og skipa sér sess fjarri miðlum falsfrétta og blekkinga þurfa nú að gera meiri ráðstafanir en áður til að leiðbeina lesendum sínum um trúverðugleika þess sem birt er. Gera þeim grein fyrir að í sumu aðsendu efni kunni að leynast vísvitandi ósannindi og rangfærslur. Þetta efni mætti birta á sérstakri síðu eða síðum eftir magni.

Donald Trump er ákærður fyrir að hafa logið að fólki og með því espað það til árása á þinghúsið í Washington. Hann á öfluga málsvara sem spyrja: Hvenær varð saknæmt fyrir stjórnmálamenn að ljúga að kjósendum? Spurningin á vissulega við rök að styðjast. Svarið við henni getur þó varla leitt sjálfkrafa til þess að kjósendur þyrpist á kjörstað til að veita lygaranum atkvæði sitt. Á þessum einkennilegu tímum er þó ekki unnt að ganga að neinu vísu í þessu efni. Öflug varðstaða um það sem er satt og rétt er nauðsynlegri nú en áður.