Pólitískar bólusetningar
Le Figaro segir að Rússar líti á bóluefni sitt sem tæki í þágu pólitískra og hugmyndafræðilegra markmiða.
Fyrr í vikunni birti breska læknatímaritið The Lancet grein þar sem sagt er að rússneska bóluefnið Sputnik V hafi 91,6% virkni gegn kórónuveirunni. Greinin vakti meiri athygli en ella innan Evrópusambandsins vegna þess hve stjórnendum ESB undir forystu forseta framkvæmdastjórnarinnar, Ursulu von der Leyen, eru mislagðar hendur við kaup á bóluefni og framkvæmd bólusetninga. Við Íslendingar súpum því miður seyðið af því.
Angela Merkel Þýskalandskanslari varð fyrst til að lýsa áhuga á rússneska bóluefninu eftir greinina í The Lancet. Hún sagði öll viðurkennd bóluefni „velkomin“. Hún leggur Rússum lið við að afla bóluefninu nauðsynlegrar viðurkenningar innan ESB. Gamaleja-stofnunin sem þróaði Sputnik V hóf miðvikudaginn 3. febrúar samstarf við þýsku IDT-rannsóknastofuna.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsir einnig áhuga á rússneska bóluefninu og segist bíða eftir niðurstöðu evrópsku lyfjastofnunarinnar. „Bóluefni eru án þjóðerna. Mestu skiptir að fá lyf sem duga,“ sagði Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka.
Í franska blaðinu Le Figaro segir
fimmtudaginn 4. febrúar að Sputnik V hafi lengi ekki verið talið marktækt bóluefni
þar sem það hafi verið sagt nothæft áður en klíniskum rannsóknum á því lauk. Þá
töluðu sumir niðrandi um „molotoff-kokkteil“ meðal bóluefna.
Hér á landi og annars staðar í Evrópu ráða vísindalegar niðurstöður afstöðu stjórnvalda til bóluefna og notkunar þeirra. Le Figaro segir að Rússar líti hins vegar á bóluefni sitt sem tæki í þágu pólitískra og hugmyndafræðilegra markmiða. Nóg sé að líta til nafnsins. Sputnik-gervitunglið var á sínum tíma tákn tæknilegra yfirburða Sovétmanna gagnvart Bandaríkjamönnum. Því var fyrst allra gervitungla skotið á loft árið 1957 – sovéskt sigurtákn í kalda stríðinu. „V“ í heiti bóluefnisins stendur fyrir orðið victory – sigur.
Í rússneska blaðinu Kommersant er Sputnik V lýst sem tæki til að „auka áhrifamátt Rússa“ og einskonar hefnd gagnvart Bandaríkjamönnum vegna sigurs þeirra í kalda stríðinu og áminning til vestrænna lýðræðisríkja um hverju megi áorka með forræðisstjórn.
Dreifing rússneska bóluefnisins einkennist af pólitískum tilgangi. Hún miðast fyrst við ríki á áhrifasvæði Kremlverja, gömlu sovésku lýðveldin eins og Hvíta-Rússland og Kazakhstan. Síðan koma ríki eins og Íran, Venezúela, Alsír og Serbía. Innan ESB rauf Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, samstöðu ríkjanna áður Sputnik V hlýtur viðurkenningu evrópska lyfjaeftirlitsins. Rússnesk stjórnvöld hraða bólusetningu í austurhluta Úkraínu á svæðum aðskilnaðarsinna og á Krímskaga til að ögra Úkraínustjórn.
Pólitískt gildi Sputnik V er mikið fyrir Kremlverja núna þegar þeir einangrast enn frekar út á við vegna Navalníj-málsins sem leiðir til harðrar vestrænnar gagnrýni og krafna um viðskiptaþvinganir. Í því ljósi gat viðurkenning The Lancet ekki komið á betri tíma fyrir Pútin. Hann fékk nýtt vopn sér til halds og trausts. Ekki er spurt um litinn á sprautunálinni heldur að bóluefnið virki.