14.12.2023 9:42

Pólitíska landslagið breytist

Við kjör Kristrúnar var nafni Samfylkingarinnar breytt og einnig merki flokksins. Hún gjörbreytti einnig stefnu flokksins. 

Um þessar mundir eru sex ár frá því að núverandi stjórnarflokkar gengu til samstarfs í ríkisstjórn. Margt bendir til að næstu misseri einkennist af nýju pólitísku landslagi. Rifjum upp hluta sögunnar.

Átta flokkar fengu kjörna menn á þing í kosningunum laugardaginn 28. október 2017. Þremur þeirra, Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum tókst að mynda ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, fimmtudaginn 30. nóvember 2017. Í stjórnarasáttmálanum var lögð höfuðáhersla á heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál auk framhalds á styrkri stjórn efnahags- og ríkisfjármála.

Flokkar skipaðir reynslumesta fólkinu á þingi mynduðu ríkisstjórnina fyrir sex árum. Sterkur þáttur í vilja þeirra til samstarfs var að binda binda enda á stjórnmálaupplausn sem ríkti á þessum tíma.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að skilja sig frá Alþýðubandalagsmönnum sem gengu til samstarfs við flokkana sem stofnuðu Samfylkinguna árið 2000 var almennt talið að flokkur hans Vinstri hreyfingin grænt framboð yrði dæmdur til einangrunar vegna þröngsýnnar, sósíalískrar stefnu. VG hefur hins vegar fengið meira fylgi en Samfylkingin í þrennum kosningum í röð, 2016, 2017 og 2021.

Samfylkingin þurrkaðist nánast út í kosningunum 2016 með 5.7% atkvæða, fékk aðeins þrjá þingmenn en tapaði sex frá 2013. Samfylkingin fékk síðan 12,1% atkvæða 2017 og jók fylgi sitt um 6,4 stig en minnkaði um 2,2 stig í september 2021, í 9,9%.

Logi Einarsson varð varaformaður Samfylkingarinnar árið 2016 og fór fram sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningum 29. október 2016. Hann náði einn kjördæmakjöri af frambjóðendum flokksins og dró tvo aðra frambjóðendur með sér inn í þingflokkinn. Oddný G. Harðardóttir sagði af sér formennsku í Samfylkingunni vegna afhroðsins í kosningunum og tók Logi við flokksformennskunni 31. október 2016. Fylgi flokksins jókst til kosninganna 28. október 2017 og þá fjölgaði þingmönnum hans um fjóra í sjö. Þeim fækkaði svo í sex 2021.

IMG_8890

Logi naut ekki lengur stuðnings sem flokksformaður og var Kristrún Frostadóttir „krýnd“ formaður Samfylkingarinnar á opnum fundi í Iðnó 19. ágúst 2022.

Kristrún hafði ekki verið virk í starfi flokksins fyrr en hún bauð sig fram sem oddviti hans í Reykjavíkurkjördæmi suður 28. október 2021. Nákvæmlega ári síðar, 28. október 2022, var hún kjörin flokksformaður á landsfundi Samfylkingarinnar í stað Loga Einarssonar sem varð þingflokksformaður í stað Helgu Völu Helgadóttur sem sagði af sér þingmennsku 2. september 2023. Hún var fyrst kjörin á þing haustið 2017.

Við kjör Kristrúnar var nafni Samfylkingarinnar breytt og einnig merki flokksins. Hún gjörbreytti einnig stefnu flokksins, hvarf frá kröfu um aðild að Evrópusambandinu (ESB) og stuðning við „nýju stjórnarskrána“. Bæði þessi stefnumál bar hátt í 2009-2013 í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar.