3.7.2020 10:13

Pólitísk „enduruppgötvun“

Stjórnarandstæðingar hér á landi ætla kannski að reyna að „enduruppgötva“ sig með því að hefja umræður um annan kjördag en 28. október 2021.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag (3. júlí) birtist næsta einkennileg frétt um að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra muni „boða formenn [stjórnmálaflokkanna] á fund á næstunni til að ræða tímasetningu næstu alþingiskosninga“. Stjórnarandstaðan er í fréttinni sögð vilja kjósa næsta vor en forystumenn í ríkisstjórn vilji klára fullt kjörtímabil. Því lýkur 28. október 2021.

Gefið er til kynna með fréttinni að einhver spurning sé um kjördag þótt forsætisráðherra segi í henni að engin ákvörðun sé um að breyta honum. Að ímynda sér að formenn stjórnmálaflokkanna geti komið sér saman um kjördag ber vott um mikla bjartsýni. Mál eins og þetta getur einmitt orðið að miklu deiluefni. Forsíðufréttin í dag er skrifuð og birt vegna fréttahallæris í von um að skapa frekara fréttaefni um ekki neitt.

1593765473_000-1q08c1Edouard Philippe biðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á fundi með Emmanuel Macron.

Í morgun barst merkileg pólitísk frétt frá Frakklandi þegar frá því var skýrt að Edouard Philippe forsætisráðherra hefði skýringarlaust beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Þetta gerist í kjölfar sveitarstjórnarkosninga þar sem flokkur Emmauels Macrons forseta fékk vonda útreið en græningjar sóttu í sig veðrið. Philippe biðst lausnar af því að Emmanuel Macron ætlar að gera tilraun til að styrkja stöðu sína með því að móta nýja stjórnarstefnu síðustu tvö ár fimm ára kjörtímabils síns.

Jafnan myndast nokkur spenna í frönskum stjórnmálum þegar mál þróast á þann veg að vinsældir forsætisráðherrans mælast meiri en forsetans. Staðan er þannig núna. Nýleg könnun sýnir að 57% vilja að Philippe sitji áfram sem forsætisráðherra en fylgi Macrons er mun minna og minnkandi. Í kosningunum sunnudaginn 28. júní vann Philippe góðan sigur í hafnarborginni Le Havre þar sem hann bauð sig áfram fram sem borgarstjóri.

Macron kallaði Edouard Philippe til samstarfs við sig úr röðum mið-hægrimanna strax eftir að hann var kjörinn forseti í maí 2017 en nú ætlar forsetinn að halla sér til vinstri í von um að styrkja stöðu sína á félagslega vængnum. Á þingi hefur forsetaflokkurinn klofnað og græningjar gengið úr honum.

Forsetinn segir þverstæðu einkenna frönsk stjórnmál. Fólki líki vel við forsætisráðherrann en ekki stjórnarstefnuna. Úrræði hans er að skipta um stjórn til að boða að stjórnarstefnan breytist. Á hvern hátt hún breytist er óljóst þó er líklegt að græn viðhorf vegi þyngra en áður.

Með því að skipa Philippe sem forsætisráðherra og dró Macron mið-hægra fylgi að forsetaflokknum (LREM) sem bauð í fyrsta sinn fram til þings í júní 2017 og vann stórsigur og hreinan meirihluta á þing sem síðan er úr sögunni vegna úrsagnar þingmanna úr flokknum.

Nú segist Macron ætla að „enduruppgötva“ sjálfan sig pólitískt.

Stjórnarandstæðingar hér á landi ætla kannski að reyna að „enduruppgötva“ sig með því að hefja umræður um annan kjördag en 28. október 2021. Það yrði í samræmi við innihaldsleysi stefnumála þeirra.

Uppfært: Skömmu eftir að Philippe lagði fram lausnarbeiðni sína skipaði Macron nýjan forsætisráðherra, Jean Castex (55 ára). Hann nýtur virðingar sem embættismaður og hefur gegnt ýmsum opinberum störfum á öllum stjórnstigum en í apríl 2020 var honum falið að stjórna opinberum aðgerðum til að takmarka útbreiðslu COVID-19-faraldursins í Frakklandi. Hann er talinn mið-hægri maður.