6.12.2023 9:20

PISA og kerfisleyndin

Það er til marks um öfugþróun í skólakerfinu að nú er upplýsingum um útkomu PISA-könnunarinnar í einstökum skólum haldið leyndum fyrir stjórnendum skólanna og foreldrum

Ekkert ríki OECD lækkar jafn mikið milli PISA-kannana 2018 og 2022 og Ísland. Í könnuninni er mæld hæfni 15 ára grunnskólanemenda í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindum.

Ísland er lægst Norðurlandanna og nálgast nú botninn meðal 37 OECD-ríkja af 81 sem tóku þátt í könnuninni. Aðeins fimm OECD-ríki fá lægri einkunn; Grikkland, Chile, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía.

Hér skal tekið undir það sem Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir í samtali við Morgunblaðið í dag (6. desember) um viðbrögð ýmissa viðmælenda fjölmiðla þriðjudaginn 5. desember vegna PISA.

Honum finnst viðbrögðin „bara vægast sagt stórfurðuleg“ þegar tekið er til við að „tala um að tala um kerfisbreytingar og að heimilin verði að gera eitthvað“. Skólasamfélagið verði að horfast í augu við hvað það hafi verið að gera, axla á því ábyrgð. Svara verði spurningunni um hvað fáist út úr skólakerfi sem kosti næstum 200 milljarða króna. Ekki sé boðlegt að niðurstaðan sé að rúmlega 50% drengja geti lesið sér til gagns.

Jón Pétur talar um að „umbúðanám“ aukist. Nám sem líti vel út á pappírnum en sé án innihalds. Á sama tíma snúi kennsla ekki að grunnatriðum og sterkari grundvelli frekara náms. Það þyki „bara ekkert fínt“ að kenna orðaforða og hugtakaskilning. Orðaforði sé þó algjör grunnur að öllum greinum.

Þetta er alvarleg gagnrýni og við henni verður ekki brugðist með því að tala um að nú þurfi alþingi samþykkja nýja stofnun sem verði miðstöð menntunar- og skólaþjónustu í stað menntamálastofnunar sem hverfi. Þessi stofnanavæðing hefur aðeins aukið flækjustig kerfisins með uppbroti menntamálaráðuneytisins. Boðleiðir lengjast með óskýrari ábyrgð.

Screenshot-2023-12-06-at-09.19.09

Það er til marks um öfugþróun í skólakerfinu að nú er upplýsingum um útkomu PISA-könnunarinnar í einstökum skólum haldið leyndum fyrir stjórnendum skólanna og foreldrum. Farið er með árangur einstakra skóla sem ríkisleyndarmál.

Þessi leyndarhyggja hófst upp úr aldamótunum en í lok tíunda áratugarins birtust opinberlega ítarlegar upplýsingar um námsárangur í skólum foreldrum til upplýsinga og í því skyni að ýta undir lifandi og almennar umræður um skólamál þar sem stuðst var við staðfestar upplýsingar.

Það voru hvorki foreldrar né nemendur sem vildu að þessari miðlun upplýsinga yrði hætt heldur kom krafan um það frá kennurum og skólastjórnendum.

Jón Pétur segir að af hálfu menntamálastofnunar sé leyndin um árangur einstakra skóla skýrð með því að PISA mæli „kerfi en ekki skóla“. Annað viðhorf ríkti til miðlunar upplýsinganna vegna PISA 2012 og 2015.

Það sem hefur breyst undanfarin ár er að fulltrúar kerfisins færa sig upp á skaftið. Til að tryggja stöðu sína sölsa kerfi undir sig vald með því að einoka upplýsingar. Á þennan hátt er grafið undan styrk einstakra skóla og foreldrum ýtt lengra frá skólastarfinu.

PISA 2022 er ekki um kerfi heldur nemendur og árangur þeirra. PISA 2022 afhjúpar hins vegar ríkjandi og vaxandi kerfishugsun í íslensku skólasamfélagi.