24.9.2022 11:52

Pírati stjórnmálavæðir sakamál

Þetta mál verður hvorki leitt til lykta á alþingi né á vettvangi fjölmiðla. Þeir sem hlut eiga að máli verða að bíða niðurstöðu innan réttarkerfisins – blaðamenn líka.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögfræðingur varð þingmaður Pírata í ksoningunum 2021. Hún tók í vikunni þátt í fjölmiðlahrinunni sem Þóra Arnórsdóttir sjónvarpskona hratt af stað með ræðu sem hún flutti þegar hún tók við Eddu-verðlaununum fyrir hönd starfsmanna ríkissjónvarpsþáttarins Kveiks að kvöldi sunnudags 18. september.

Fjölmiðlamennirnir sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur yfirheyrt vegna rannsóknar sem snýr að stuldi á síma Páls Steingrímssonar skipstjóra, afritun á efni úr honum og birtingu þess, sé rétt ráðið í málavexti af fréttum, hafa undanfarna daga rætt málið á opinberum vettvangi, skýrt sína hlið og gert lítið úr tilefni rannsóknarinnar og aðferðum lögreglunnar.

Píratinn Arndís Anna kaus að taka þetta mál upp í óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi fimmtudaginn 22. september. Hóf hún ræðu sína á að vitna í orð sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét falla í pistli á Facebook í febrúar 2022 en þar spurði ráðherrann:

„Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Hvernig getur það talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu?“

Allar götur síðan hafa fjölmiðlamennirnir sem hlut eiga að máli talið að í þessum orðum felist ekki aðeins aðför að þeim heldur frelsi og starfsfriði allra blaðamanna í landinu.

Arndís Anna segir það „óhugnanlega stöðu“ að fjórir blaðamenn séu yfirheyrðir með réttarstöðu sakbornings. Þá á hún ekki við að það sé „óhugnanlegt“ fyrir brotaþola eða þá sem telja sig geta treyst blaðamönnunum heldur fyrir þá sem sæta yfirheyrslunni.

Istockphoto-1209659465-612x612Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, starfssystir Þóru á ríkisútvarpinu, blandaði sér í fjölmiðlahrinuna sem nú stendur og líkti sem formaður blaðamanna fjármálaráðherra við þá „sem hneigjast til ólýðræðislegra stjórnarhátta, leggja stein í götu frjálsra fjölmiðla, takmarka athafnafrelsi þeirra og ofsækja blaðamenn, meðal annars með hjálp lögreglu“.

Þegar reitt er svona hátt til höggs til að draga athygli frá efni málsins og breyta sakamálarannsókn í ágreining um réttarstöðu fjölmiðlamanna í landinu er það ekki til marks um að áhugi sé á því að ræða sakarefnið.

Kveinstafirnir eru í anda vælumenningarinnar: einstaklingar hafi rétt til að skapa sér „öruggt svæði“ þar sem önnur lög gildi um þá en almennt um borgara landsins. Vissulega gilda sérlög um frelsi og rými blaðamanna til að afla frétta og vernda heimildarmenn sína. Þau ber að virða en ekki misnota.

Blaðamennirnir kveinkuðu sér um tíma undan því að rannsóknin tæki langan tíma, raskaði starfsfriði þeirra. Andmæla-þunginn síðan settur á að „stjórnmálavæða“ málið, nú síðast með aðstoð píratans á alþingi. Það voru blaðamennirnir sjálfir sem töfðu rannsóknina.

Þetta mál verður hvorki leitt til lykta á alþingi né á vettvangi fjölmiðla. Þeir sem hlut eiga að máli verða að bíða niðurstöðu innan réttarkerfisins – blaðamenn líka.