26.11.2019 9:39

Pírati í glerhúsi

Umræður í þessa veru skorti einmitt þegar ákvörðun var tekin um að Þórhildur Sunna yrði nefndarformaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eftir að hafa verið talin brotleg við siðareglur þingmanna.

Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fyrsti þingmaðurinn sem sætti úrskurði um að hafa brotið siðareglur þingmanna vegna offors í garð samþingmanns síns fer nú mikinn sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins og segist ekki útiloka að ráðist verði í „frumkvæðisrannsókn“ á hugsanlegu vanhæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna Samherjamálsins.

DE9D979A32085E46BAC71E9E1079CFE1EB2448C5B7F1F9308F538854B566A233_713x0Þórihildur Sunna í sal alþingis. - myndin er af vefsíðunni visir.is/Vilhelm

Skilja má útspilið sem einskonar hótun af hálfu nefndarformannsins en Þórhildur Sunna vill að ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, víki af þingi. Hún er pólitískur andstæðingur hans og stjórnarandstæðingur að auki og notar nú Namibíu-Samherjamálið til þrautar í því skyni að draga athygli að sér sjálfri og lemja á pólitískum andstæðingum sínum.

Í frétt á vefsíðunni visir.is segir mánudaginn 25. nóvember að þann dag hafi fjöldi sérfræðinga komið á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins „þar sem hæfisreglur sem gilda um ráðherra voru til umfjöllunar. Umræðurnar voru almenns eðlis og sérfræðingar ekki beðnir um að leggja sérstakt mat á hæfi sjávarútvegsráðherra í tilfelli Samherjamálsins,“ segir í fréttinni og þar stendur einnig:

„Þannig veldur aðkoma að almennum ráðstöfunum, útgáfu reglugerða og þvíumlíkra þátta, almennt ekki vanhæfi. En sérstök hagsmunatengsl sem getur reynt á í einstökum afmörkuðum málum, þær sérstöku stjórnvaldsákvarðanir geta reynt á hæfisreglur en svo hvaða hagsmunaárekstrar það eru sem valda því að maður þarf að víkja, það er næsta spurning sem þá upp kæmi,“ segir Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem var einn þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina í morgun.“

Trausti Fannar segir þarna hluti sem eru á allra vitorði sem hafa kynnt sér íslensk stjórnsýslulög. Það er undir þeim komið sem að töku ákvörðunar kemur að meta hæfi sitt í einstökum málum en alls ekki þingmanna fyrir hönd ráðherra eins og ætla mætti af bægslagangi Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Í fréttinni skýrist ekkert um hvað „frumkvæðisathugunin“ á að snúast, orðinu virðist einna helst kastað fram til að draga athygli að nefndarformanninum.

Á visir.is er haft eftir Þórhildi Sunnu að einnig sé mikilvægt að ræða „þann þátt málsins sem snýr að trausti og trúverðugleika stjórnkerfisins“. Umræður í þessa veru skorti einmitt þegar ákvörðun var tekin um að Þórhildur Sunna yrði nefndarformaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eftir að hafa verið talin brotleg við siðareglur þingmanna. Þar var um baktjaldasamninga stjórnarandstæðinga á þingi að ræða eftir að þeim var falið sjálfdæmi um að velja formenn í nokkrum þingnefndum. Má segja að Þórhildur Sunna hafi sett eigin hagsmuni framar virðingu alþingis.