29.5.2021 10:18

Pírati gegn Samherja

Sjálfur er hann í framboði í gegnum klíkukerfi innan flokks Pírata. Það verður spennandi að sjá hvað hann fær mörg atkvæði út á óvild sína í garð Samherja.

Einar Brynjólfsson skipar efsta sætið á lista Pírata í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningar í haust. Hann sat á þingi 2016-2017. Með honum bætist því gamalkunnug rödd í pírata-kórinn. Þar syngur gjarnan hver með sínu nefi enda fylgir flokkurinn engri stefnu eins og dæmin sanna heldur leitast þingmenn hans við að draga að sér athygli með uppákomum í þingsal og fyrirspurnum til ráðherra. Þeir ganga oft of langt og er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skýrasta dæmið um það enda eini þingmaðurinn sem gerst hefur brotleg við siðareglur þingmanna.

Rætt er við Einar í Morgunblaðinu í dag (29. maí) og þar segir að hann setji „í forgang pólitík, hugsjónir og áherslumál Pírata, sem eru samkvæmt kynningu á vef flokksins gagnrýnin hugsun, upplýsing, borgararéttindi, persónuvernd og gegnsæi svo eitthvað sé nefnt“. Má skilja Einar á þann veg að fyrst með Pírötum hafi þessi gildis „smám saman“ tekið „að seytla inn í stefnur annarra flokka“. Það færi vel á að hafa orðin „sjálfumgleði“ og „grobb“ meðal áhersluatriða á vef Pírata svo að ekki sé minnst á „illmælgi“ með vísan til málflutnings Dóru Bjartar Guðjónsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur.

945249Einar Brynjólfsson sat á þingi fyrir Pírata 2016 til 2017 (mynd: mbl.is).

Einar segir: „Ljóslifandi dæmi um stefnu Pírata í verki er hvernig við flettum ofan af akstursgreiðslum þingmanna. Píratar eru alltaf einu skrefi á undan.“ Þess er látið ógetið að offors Pírata gagnvart öðrum þingmanni vegna akstursgreiðslnanna var á þann veg að Þórhildur Sunna braut siðareglurnar.

Þá ræðst Einar sem sækir fylgi sitt til kjósenda í Norðausturkjördæmi af hörku á Samherja og eigendur fyrirtækisins, þeir hafi ekki reist fyrirtæki sitt á dugnaði einum saman heldur komi þar til „eitruð blanda yfirgangs og græðgi“. Undirrót alls þessa sé svo kvótakerfið, sköpunarverk fjórflokksins og afsprengja hans sem njóti „rausnarlegra styrkja til þessara flokka og einstakra frambjóðenda þeirra“. Engin dæmi nefnir hann þó um rausnarskapinn.

Telur Einar „sjálft lýðræðið“ í hættu vegna gífurlegs valds eigenda fyrirtækja á borð við Samherja, þeir skeyti „hvorki um skömm né heiður“ fyrir utan ótta og dugleysi stjórnmálamanna „til að verjast yfirganginum“. Þá séu margir svo blindaðir af „meðvirkni“ að þeir sjái ekki „ástæðu til að rísa upp gegn þessu ástandi“. Fyrirtæki á borð við Samherja geti ekki réttlætt framkomu sína „með rausnarlegum styrkjum til bæjarhátíða, íþróttastarfs og slíks“. Hún verði „ekki heldur réttlætt með því að fjölmargt starfsfólk, jafnvel heilu og hálfu sveitarfélögin, hafi lifibrauð sitt vegna umsvifa þessa fyrirtækis eða annarra í svipaðri stöðu“. Þegar farið sé út af sporinu sé ekki unnt að réttlæta neitt.

Þessi skammarræða frambjóðandans og ásakanir hans um meðvirkni annarra með þeim sem stjórna stórfyrirtæki í anda eitraðrar blöndu yfirgangs og græðgi sýna að lýðræðið lifir góðu lífi í kjördæmi hans. Sjálfur er hann í framboði í gegnum klíkukerfi innan flokks Pírata. Það verður spennandi að sjá hvað hann fær mörg atkvæði út á óvild sína í garð Samherja.