24.5.2023 9:20

Pírati gegn efldri löggæslu

Málflutningur píratans og hugurinn sem þar birtist í garð lögreglunnar og löggæslu almennt kemur í sjálfu sér ekki á óvart. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem hélt utan um skipulag leiðtogafundar Evrópuráðsins af hálfu forsætisráðuneytisins sagði að viðmiðunartalan um kostnað ríkisins vegna hans væri 1,8 milljarðar króna.

Gunnar Hörður Garðarsson, talsmaður embættis ríkislögreglustjóra, sagði á ruv.is um öryggisgæsluna eftir fundinn: „Þetta er verkefni af þeirri stærðargráðu að það mun taka smá tíma að taka það allt saman, en við náðum að vera innan þess ramma sem við settum.“

Verið væri að taka saman kostnað vegna búnaðar sem keyptur var inn. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði að hluti þess búnaðar sem var notaður hefði fengist að láni og yrði skilað strax að fundi loknum, en hluti búnaðarins yrði áfram tiltækur hér á landi. Það væri hluti af því að geta tekist á við svona verkefni í framtíðinni, almennt væri lögreglan óvopnuð og svo yrði áfram.

1350131Sérsveit ríkislögreglustjóra (mynd:mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Þrátt fyrir að þessar upplýsingar í fjölmiðlum sá Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (pírati) tilefni til að standa upp á alþingi í 23. maí til að ræða um öryggisgæsluna og kostnaðinn vegna fundarins. Hún sagði því fleygt að „heildarkostnaður ríkisins“ af leiðtogafundinum væri „allt upp í 4 milljarða“ og öryggisgæslan hefði kostað mest. Keypt hefði verið mikið magn skotvopna fyrir fundinn, hundruð sjálfvirkra byssa. Síðan spyrji menn hvað „skuli svo eiginlega að gera við þessi vopn, hvort lögreglan hyggist eiga þau áfram eða selja þau“. Gaf hún til kynna að fundurinn hefði í „reynd verið nýttur til að réttlæta stóraukinn vígbúnað íslensku lögreglunnar“. Vildi hún vita hvað dómsmálaráðherra ætlaði að gera í málinu.

Dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson sagði búnaðarkaupin hafa verið fjölbreytt, alls konar varnarbúnaður, vesti og annað í þá veru, eitthvað hefði verið keypt af skotvopnum, þá hefði þurft að fjölga mótorhjólum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þannig mætti lengi telja. Ráðherrann taldi mestu skipta að lögregluliðið í landinu hefði aukið við þekkingu sína og þjálfun vegna fundarins. Eftir stæði öflugra og reynslumeira lögreglulið. Að því yrði lengi búið. Ekki ætti að selja neinn búnað sem keyptur var vegna fundarins, hann yrði nýttur í framtíðinni.

Málflutningur píratans og hugurinn sem þar birtist í garð lögreglunnar og löggæslu almennt kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir bauð sig fram til setu á alþingi til að vinna að stefnunni um landamæralaust Ísland, opið fyrir öllum á kostnað skattgreiðenda. Hún sér ekkert athugavert við að afhenda kærunefnd útlendingamála fjárveitingarvald sem leiðir til milljarða útgjalda ár hvert. Hún krefst þess jafnframt að skjólstæðingar hennar á biðlista um ríkisborgararétt fái sérmeðferð hjá útlendingastofnun svo að hún geti fjallað um málefni þeirra í sérnefnd alþingis um ríkisborgararétt. Að hún sé vanhæf telur hún af og frá. Píratar telja siðareglur fyrir aðra en sig. Í þeim anda er það eitur í beinum þingmannsins að lögreglan skuli hafa verið efld í tilefni leiðtogafundar Evrópuráðsins.