3.2.2018 11:23

Píratar vilja spóla í sama farinu

Píratar festa sig við eitthvert uppþotsmál sem getur sameinað þá og hanga á því eins og hundar á roði.

Í Staksteinum Morgunblaðsins segir í dag (3. febrúar):

„Dag eftir dag er þrasað á þingi um mál sem löngu eru fullrædd og hefur sú umræða engan tilgang annan en að skapa uppnám og óróa eins og fram hefur komið á vef pírata og víðar að er tilgangur herferðarinnar.“

Þetta eru orð að sönnu. Píratar festa sig við eitthvert uppþotsmál sem getur sameinað þá og hanga á því eins og hundar á roði. Með því að tala alltaf um sama málið komast þeir hjá að þurfa að taka afstöðu til annarra mála sem er þeim almennt um megn eins og dæmin sanna.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, var kjörin formaður velferðarnefndar alþingis með vísan til samkomulags milli meiri og minni hluta á þingi um skiptingu formennsku í nefndum. Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, hefur þegar sýnt að henni er um megn að stýra stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins á viðunandi hátt.

Halldóra ber velferð þingmanna fyrir brjósti eins og birtist í þingræðu hennar um fundarstjórn forseta þriðjudaginn 30. janúar. Halldóra sagði:

„Mig langaði bara stuttlega til að koma upp og gagnrýna það, ég hef gert það áður og mun halda áfram að gera það, hve seint dagskrá kemur til okkar þingmanna. Þegar maður hefur smátíma yfir daginn til að undirbúa sig fyrir næsta dag getur maður ekkert gert af því að ég veit ekkert hvaða mál verða á dagskrá á morgun. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ekki er hægt að verða við þessu.

Það er mikil vinna sem við vinnum hérna og það er mikilvægt að vera undirbúin fyrir umræður. Mig langar til að geta tekið þátt í umræðum og ég get ekki unnið á kvöldin t.d., ég er bara búin á því á kvöldin eftir að ég er búin að svæfa krakka og fleira. Mig langar bara að hafa tíma til að undirbúa mig svo að ég geti tekið þátt á upplýstan hátt í þeim umræðum sem eru í gangi á þinginu. Mér finnst það bara vera „basic“ [svo!] virðing við okkur þingmenn að geta haft dagskrána tilbúna fyrr.“

Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrv. forseti alþingis, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat á þingi þennan dag og blandaði sér í umræðuna og sagði:

„Ég vil beina því til þingmanna sem koma upp og gagnrýna forseta Alþingis, hver sem það er á hverjum tíma, fyrir að hafa dagskrána ekki tilbúna fyrr að líta aðeins í eigin barm vegna þess að þegar þingflokkar og þingmenn koma sér saman um hversu lengi þeir ætli að tala í einstökum málum, hversu langan tíma þeir áætla í tilteknar umræður, verður hægt að setja dagskrá þingsins upp með miklu betri og skilvirkari hætti en hægt er nú þegar ekkert slíkt samkomulag eða samræður standa yfir á milli þingmanna.“

Þarna víkur Unnur Brá að grundvallarmun á starfsháttum á alþingi og almennt á þjóðþingum, að menn koma sér saman um skipuleg vinnubrögð; ákveða fyrirkomulag umræðna, velja menn til þátttöku í þeim og tilkynna hvenær gengið verður til atkvæða.

Jón Þór Ólafsson, flokksbróðir Halldóru Mogensen, stóð upp og sagðist sammála henni en svo kom þetta:

„Varðandi það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem ég ber mikla virðingu fyrir, nefnir er grundvöllurinn fyrir því að við getum sett málin á dagskrá fyrir fram ekki að við afsölum okkur réttinum til að tala í einhverjum málum. Nei, við vitum öll að þessi tíma- og málþófshefð o.s.frv. er til staðar vegna þess að menn eru að keppa um dagskrárvaldið. Við þurfum að tala um dagskrána í heildstæðu samhengi, þá getum við leyst það, en við getum aftur á móti leyst dagskrána og verið betur undirbúin með því að fá hana fyrr fram. Er það ekki bara eðlilegt?“

Raunar er ekki heil brú í þessum orðum Jóns Þórs eins og stundum áður. Hann vill þó ekki að leikreglunum sé breytt, hann vill ekki afsala sér rétti til keppni um „dagskrárvaldið“ og þar með til að setja dagskrá þingsins í uppnám til að forðast að þurfa að taka afstöðu til mála.

Það sem nú er kallað „hálftími hálfvitanna“ af þeim sem fylgjast með þingstörfum átti að vera einskonar öryggisventill – þar gætu þingmenn stofnað til upphlaupa og fengið tilfinningalega útrás vegna frétta dagsins áður gengið yrði til dagskrár. Því miður verður þessi hálftími sífellt lengri vegna þingmanna sem líta á hlutverk sitt að „keppa um dagskrárvaldið“.