Píratar pukrast með fjármál sín
Athyglisvert að þarna sé tilkynnt um opið bókhald
Pírata en því var lokað árið 2016 eftir að hafa verið opið frá 2013 þegar
flokkurinn var stofnaður. Lokunin braut gegn flokkslögum.
Píratar kusu sér nýtt framkvæmdaráð mánudaginn 9. september og í því sitja Formaður : Guðmundur Arnar Guðmundsson, formaður, Valgerður Árnadóttir ritari, Björn Þór Jóhannesson gjaldkeri og Gamithra Marga alþjóðafulltrúi. Aðalfundur flokksins var haldinn 31. ágúst og þar kynnti Unnar Þór Sæmundsson að hann yrði ekki aftur í kjöri til gjaldkera og sagði í ræðu:
„Gjaldkera starfið er sjálfboðavinna eins og allar aðrar trúnaðarstöður innan flokksins. Ég get bara sagt ykkur það strax að þetta er sturlun. Það starf sem ég hef verið að sinna er 100%.“
Í Fréttablaðinu var 3. september sagt frá því Pírata-flokkurinn hefði tapað 12,5 milljónum króna árið 2018. Þetta kom í ljós þegar ársreikningurinn var gerður opinber á aðalfundinum. Árlegt framlag ríkisins til Pírata er 72 milljónir króna, sagði blaðið, og því kom rekstrarniðurstaðan fundarmönnum í opna skjöldu. Sérstaklega vakti sú staðreynd athygli að slegið hefði verið rúmlega 22 milljón króna skammtímalán.
Af vefsíðu Pírata.
Unnar Þór Sæmundsson birti kveðjuræðu sína sem gjaldkeri Pírata á Facebook-síðu sinni sunnudaginn 1. september. Þar boðar hann bjartari tíma í fjármálum flokksins. Hann sagði:
„Ég ætla líka aðeins að monta mig á [svo!] þeim árangri sem við höfum náð á þessu starfsári framkvæmdaráðs.
1.Við klárum að borga upp skuldir núna strax í febrúar 2020.
2. Við erum búin að opna bókhaldið.
3. Það er líka komið mjög einfalt ferli til þessa að tryggja að næstu gjaldkerar komist ekki hjá því að birta það.
4. Við höfum langt grunn að veglegum kosningasjóð.
5. Sjóð til húsnæðiskaupa.“
Athyglisvert að þarna sé tilkynnt um opið bókhald Pírata en því var lokað árið 2016 eftir að hafa verið opið frá 2013 þegar flokkurinn var stofnaður. Í Fréttablaðinu sagði Unnar Þór:
„Það brýtur í bága við lög Pírata að hafa ekki bókhaldið opinbert og því höfðum við að leiðarljósi að vinda ofan af því. Það tókst og við erum hreykin af því að geta opnað bókhaldið. Það leiðir síðan óhjákvæmilega til heilbrigðra skoðanaskipta um hvernig fjármunum flokksins sé ráðstafað.“
Unnar Þór skilur þannig við að eigin sögn að arftaki hans í gjaldkerastöðunni geti ekki gerst lögbrjótur með því að loka bókhaldinu aftur.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram 81 fyrirspurn, á 149. löggjafarþinginu sem lauk 2. september 2019, þar af óskaði hann í 77 tilvikum eftir skriflegu svari. Hann segir á ruv.is mánudaginn 10. september að hann komi upprunalega úr gæðaeftirlitsstarfi sem geri það að verkum að hann sé dálítið þjálfaður í því að spyrja spurninga.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sætti ámæli siðanefndar alþingismanna vegna þess hvernig hún gekk fram gegn Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, vegna fjárgreiðslna til hans. Hún þegir þunnu hljóði um fjármál eigin flokks og Björn Leví Gunnarsson stundar gæðaeftirlit utan Pírata og virðist hafa verið sama þótt lög flokksins hafi verið brotin með lokun bókhaldsins. Tvískinnungur þingmanna Pírata ríður ekki við einteyming.