18.6.2020 10:30

Píratar í umboði stjórnarandstöðu

Verði píratinn Jón Þór Ólafsson undir á alþingi segir hann ekki af sér heldur klagar til forseta lýðveldisins!

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ætlar ekki styðja Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata, sem formann nefndarinnar. „Hugmyndir þeirra [pírata] eru með þeim hætti að þau eru ekki réttu aðilarnir til að leiða þetta starf. Ég mun ekki styðja hann til formennsku,“ segir Brynjar við Morgunblaðið í dag.

Undir þessi orð Brynjars má taka. Á hinn bóginn er rétt að benda á að það er í raun stjórnarandstaðan öll á alþingi sem ber ábyrgð á því að pírötum er ætlað að veita þessari nefnd formennsku. Um það var samið við hana að hún skyldi ráða formennsku nokkrum þingnefndum.

Eftir að nýtt kjörtímabil hófst á alþingi haustið 2017 hefur formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verið í höndum stjórnarandstæðings. Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, gegndi formennskunni í tvö ár og vann sér það helst til frægðar að laumast baksviðs og á brott af þingstað á Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, heiðursgestur alþingis, flutti ávarp.

Í tengslum við komu danska þingforsetans varð Jón Þór Ólafsson sér einnig eftirminnilega til skammar. Hann var þá einn varaforseta alþingis og lét eins og hann hefði ekkert vitað um að Pia Kjærsgaard yrði gestur þingsins vegna 100 ára fullveldisafmælisins 2018.

Jón Þór fór einnig með himinskautum þegar alþingi hafði samþykkt tillögu dómsmálaráðherra um dómara í landsrétt. Vegna þess sem þá var sett á svið fór Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þá sérkennilegu leið fyrir undirskrift sína að óska eftir hvort löglega hefði verið staðið að afgreiðslu málsins á alþingi!

1135501Píratinn Jón Þór Ólafsson segist verða næsti formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis (mynd: mbl.is/Hari).

Forseti lýðveldisins nefndi þrjár ástæður fyrir beiðni sinni. (1) lögfræðingar hefðu lýst „yfir efasemdum um að rétt hefði verið að málum staðið, að vísu einatt með fyrirvara um að málsatvik lægju ekki fyllilega ljós fyrir“. (2) Forseti vísaði til einkennilegs texta sem birtist á netinu með hvatningu til hans um að verða ekki við skyldu sinni til að undirrita skjölin. Og (3) „[H]afði Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og 3. varaforseti Alþingis, samband við mig og lýsti efasemdum um lögmæti atkvæðagreiðslunnar,“ sagði forseti.

Jón Þór sá sem sagt ástæðu til að klaga samþingmenn sína fyrir forseta Íslands og varð það eitt af tilefnum formlegrar rannsóknarbeiðni forsetans til alþingis. Þetta er einsdæmi sem vonandi verður ekki notað sem marktækt fordæmi.

Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði af sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af því að hún vildi ekki lúta vilja meirihluta nefndarinnar. Lýðræðisástin ristir ekki dýpra. Verði píratinn Jón Þór Ólafsson undir á alþingi segir hann ekki af sér heldur klagar til forseta lýðveldisins!

Píratar eru ófærir um að ræða stjórnmál á hlutlægum grunni. Þeir persónugera þau og væla á opinberum vettvangi sé að þeim fundið. Að virðing alþingis vaxi við þetta er borin von.