12.5.2020 9:49

Píratar draga víglínu í Geirsgötu

Barátta borgaroddvita Pírata gegn einkabílnum er hennar heitasta baráttumál, einskonar 30 ára stríð – nýja víglínan í Geirsgötu.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, skrifar grein í Fréttablaðið í dag (12. maí 2020) undir fyrirsögn Fortíðarskvaldur. Með orðinu á hún við það hún kallar „endalaus[an] svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar“.

Grein sína ritar Dóra Björt um það bil 30 árum eftir að Davíð hætti sem borgarstjóri en er samt með hann á heilanum. Hún telur sig nú berjast gegn „sveittum krumlum fortíðar um visnandi svart/hvíta ímynd samfélags þar sem hugmyndin um einkabílinn sem helsta kennimerki sjálfstæðisins fær að hjakka áfram í sama subbulega bílfarinu“. Dóra Björt segir það „visnandi og fúnandi ímynd“ að ætla einkabílnum að njóta „þeirra fullkomnu forréttinda sem hann og þeir [eigendur hans] hafa alltaf notið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins“.

Barátta borgaroddvita Pírata gegn einkabílnum er hennar heitasta baráttumál, einskonar 30 ára stríð.

1206354Fyrir norðan biðskýlið við Geirsgötu er hjólastígur. Píratar telja að það hefði skapað óverjandi hættu að leggja lykkju á stíginn til að skapa útskot fyrir strætisvagna. (Mynd: Árni Sæberg, mbl.is.)

Einkabíla-andúð Pírata við stjórnvöl Reykjavíkurborgar birtist víða. Til dæmis er athygli núna beint að ákvörðun skipulags- og samgönguráðs borgarinnar undir formennsku píratans Sigurborgar Ósk Haraldsdóttur um að hefta umferð um Geirsgötu með því að hafa þar ekki útskot fyrir strætisvagna, það kynni að fipa hjólreiðamenn á braut fyrir norðan götuna. Fyrir nokkrum dögum talaði Sigurborg Ósk um þessa ákvörðun sem „forgangsröðun ferðamáta“ hvorki meira né minna.

Nú þegar málið er komið inn á borð borgarstjóra með bréfi frá bæjarstjóra Seltjarnarness sem telur ákvörðun Sigurborgar Óskar samkomulagsbrot milli bæjarfélaganna segir hún í Morgunblaðinu (12. maí): „Þetta er ekki stórt mál, hér er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Að strætó stoppi í örskamma stund getur ekki verið eitt af stóru málunum í okkar samfélagi.“

Eftir lestur hatursgreinar píratans Dóru Bjartar í garð einkabílsins og Sjálfstæðisflokksins er enn holari tónn en ella í þessum flótta Sigurborgar Óskar frá umræðum um biðskýlið við Geirsgötu. Þetta er einfaldlega eitt af hjartans málum Pírata eins og rétturinn til að ganga á sokkaleistunum í sal alþingis.

Það skýrist æ betur að samstarfsflokkar Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, Samfylking, Viðreisn og VG, láta öfgaandstæðinga einkabílsins ráða ferðinni í skipulags- og samgöngumálum borgarinnar.

Í Morgunblaðsviðtali kaus G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðinnar, að búa til nýtt hugtak „skilavegur“ til að skýra hvers vegna ríkisstofnunin hefði liðið borgaryfirvöldum að skerða umferð um stofnveg milli bæjarfélaga án þess einu sinni að sýna þá „kurteisi“ að gera Vegagerðinni grein fyrir áformum sínum. Nú segir Sigurborg Ósk í blaðinu:

„Ég get alveg tekið undir það. Það er alltaf kurteisi að tala saman, engin spurning. En þetta er ekki stórt mál.“

Enn áréttar píratinn að málið sé ekki stórt. Umframkeyrslan vegna Nauthólsvíkurbraggans var ekki heldur stórmál eða dönsku stráin fyrir utan hann. Það safnast hins vegar þegar saman kemur.

Hér er um að ræða brot á samkomulagi við nágrannasveitarfélag. Láti Vegagerðin ósamþykkta hindrun á stofnvegi yfir sig ganga sem spurningu um „kurteisi“ skapar hún fordæmi. Stóra málið og líklega það stærsta í þessu samhengi er þó að píratar líta á einkabílinn sem höfuðóvin sinn. Þarna tekst þeim að ná sér niðri á honum og eigendum hans.

95497077_10213192488926109_9107639100772450304_nVegna þeirra sem átta sig ekki á hvað við er átt þegar rætt er um útskot fyrir strætisvagna birti ég þessa mynd sem ég tók á dögunum við Kringlumýrarbraut. Þar sést svona útskot. Á meðan unnið var að skiptingu á leiðslum og gerð þessa skýlis (líklega í um það bil eitt ár) var biðstöðin fyrir norðan Hamrahlíðina og þar stöðvuðu strætisvagnar og vagnar fyrir ferðafólk án útskots. Á leið að Hamrahlíðinni úr norðri varð ég oft vitni að hættulegum atvikum sem urðu vegna vagnanna og eru þó þrjár akreinar á þessum stað.