10.2.2021 9:07

Pfizer-draumurinn úti

Viðræðurnar við Pfizer runnu út í sandinn. Miðað við þá hagsmuni sem voru í húfi fyrir Íslendinga og íslenska þjóðarbúið var einkennilega að þessu öllu staðið, svo að ekki sé meira sagt.

„Mér fannst hins vegar fyndnast og fáránlegast af öllu að heilt fótboltalið af heimspekingum fór að tjá sig um þessa tilraun í Fréttablaðinu í morgun. Var að tjá heimspekilegar vangaveltur um kjaftasögu. Mér finnst það vera svolítið met og finnst að þessi menn eigi skilið einhvers konar medalíu fyrir þetta,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á visir.is þriðjudaginn 9. febrúar.

Hann vísar þarna til greinar þriggja prófessora og tveggja dósenta í heimspeki sem undir fyrirsögninni: Áleitnar spurningar um Ísland sem tilraunaland í Fréttablaðinu 9. febrúar.

Greinin var skrifuð til að lýsa áhyggjum yfir siðferðilegri hlið þess að samið yrði við lyfjarisann Pfizer um svonefnda „fjórðu fasa“ rannsókn hér á landi af áhrifum bóluefnis fyrirtækisins gegn kórónuveirunni. Með rannsókninni hefði verið tryggt að Íslendingar yrðu al-bólusettir fyrstir þjóða. Að sögn Kára töldu sérfræðingar Pfizer útbreiðslu veirunnar ekki nægilega mikla hér til að tilraunin skilaði árangri.

9781844861293Viðræðurnar við Pfizer runnu út í sandinn. Miðað við þá hagsmuni sem voru í húfi fyrir Íslendinga og íslenska þjóðarbúið var einkennilega að þessu öllu staðið, svo að ekki sé meira sagt.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson, blaðamaður á Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, segir 10. febrúar í hugleiðingu sem hann nefnir Fórnfýsi:

„Reglulega koma upp stór hagsmunamál þar sem stjórnvöld eiga í samskiptum við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Þegar svo ber við má nú slá því föstu að ákveðinn hópur þrýsti á stjórnvöld að víkja frá grundvallarhlutverki sínu, þ.e. að standa fyrst og fremst vörð um hag Íslendingar. Fórnfýsi íslenska ríkisins gagnvart öðrum þjóðum verður æðsta dyggðin. Þessi nýstárlega skoðun á hlutverki ríkisins kom skýrt fram í Icesave-deilunni og nú dúkkar hún aftur upp þegar ærið og brýnt verkefni er fyrir höndum.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flokksins sem lagði höfuðáherslu á að þóknast kröfuhöfunum í Icesave-málinu til að styggja ekki ESB, sagði á ruv.is 9. febrúar:

„Við vitum í rauninni ekki hvernig samningstilboðið yrði [frá Pfizer]. En þegar það kemur á borðið hljóta að vakna fjölmargar spurningar. Þegar bólusetja á heila þjóð í tilraunaskyni, þá kvikna fullt af siðferðisspurningum sem er eðlilegt að Alþingi fái tækifæri til að svara. Ég mun auðvitað kalla eftir því að forsætisráðherra setji okkur eitthvað inn í málið.“

Kári Stefánsson segir okkur fórnarlömb eigin velgengni vegna skorts á smitum. Hann segir þó einnig í Morgunblaðinu 10. febrúar:

„Það var talað of mikið um þetta og óvarlega, sem menn hefðu helst ekki átt að gera. Ég held að það hafi verið fjallað of mikið um þetta í pressunni fyrir smekk Pfizer og ég tel að það geti hafa haft einhver áhrif, ef ekki úrslitaáhrif.“

Í síðari heimsstyrjöldinni voru hengd upp plaköt víða í opinberum skrifstofum í Bretlandi með þessari viðvörun: Careless talk costs lives – lausmælgi kostar mannslíf. Þetta á við enn þann dag í dag.