Pestin og trúverðugleikinn
Augljóst er hverjum sem fer um meðal fólks að samskipti eru mun frjálslegri en þegar boð og bönn yfirvalda voru tekin bókstaflega og enginn sá fyrir endann á neinu.
Hér hefur undanfarið í pistlum verið bent á að umræður um COVID-19-faraldurinn eru allt annars konar núna innan bólusettra þjóða en áður. Spurningin snýst um að lifa með afbrigðum veirunnar sem „mildum sjúkdómi“ en ekki útrýma henni. Tveir innlendir ritstjórar með gjörólíka afstöðu til þjóðfélagsmála eru á hinn bóginn samstiga þegar þeir segja að ræða verði um faraldurinn á nýjan hátt í ljósi stöðunnar nú.
Virk aðferð til að halda útbreiðslu veirunnar í skefjum er að nýta sér boð um sýnatöku (mynd: mbl.is).
Í leiðara Fréttablaðsins í dag (30. júlí) segir Hörður Ægisson, markaðsritstjóri blaðsins:
„Þökk sé bólusetningum eru um 98 próesnt þeirra 966 einstaklinga sem hafa nú greinst hér á landi með engin eða væg einkenni. Aðeins tíu hafa þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda – tveir óbólusettir eru á gjörgæsludeild – sem er rúmlega 1 prósent þeirra sjúkrarúma sem Landspítalinn ræður yfir. Þá sýna rannsóknir að bóluefnin virka betur á alvarleg veikindi vegna Delta-afbrigðisins en búast mátti við. Sökum þessarar gerbreyttu stöðu hljótum við að horfa á smittölur með allt öðrum hætti en áður.
Munum hvert verkefnið hefur verið frá upphafi. Markmiðið er ekki að enginn smitist eða þurfi að leggjast inn á sjúkrahús heldur að verja heilbrigðiskerfið fyrir of miklu álagi og koma landsmönnum í var með bólusetningum. Það vekur furðu að einungis tvær innlagnir þurfti nú til þess að Landspítalinn lýsti yfir hættustigi.“
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, segir meðal annars í grein á vefsíðunni í dag:
„Vissulega geta verið tölfræðilega einhverju hærri líkur á því að ríkisborgari tiltekins lands eða dvalargestur þess sé með Covid-smit, heldur en Íslendingur. Nú þegar Ísland er appelsínugult í litakóðum Sóttvarnastofnunar Evrópu, sem telst nálægt meðaltali í álfunni er illskiljanlegt að skikka fólk í sérstaka sýnatöku eða hömlur vegna ferðalaga.
Að hólfa niður hlýtur að teljast skynsamleg ráðstöfun á bráðastigi þegar reynt er að forðast dreifingu óviðráðanlegs sjúkdóms, en núna er sjúkdómurinn ekki sá sami og við vitum að það óviðráðanlega er að útrýma honum.
Það að leggja til hólfun milli landa er því að öllum líkindum úrelt viðbragð byggt á útrunnum forsendum.“
Jón Trausti segir einnig:
„Það er tímabært að færa ábyrgðina og áhættuna á Covid yfir til einstaklinganna og fyrirtækjanna, en framfylgja ábyrgðinni á innviðum gagnvart stjórnvöldum. Þau geta ekki látið eins og viðbúnaður heilbrigðiskerfisins sé þeim óviðkomandi og ábyrgðin liggi hjá utanaðkomandi sjúkdómi sem hefur ekkert siðferðislegt vægi eða ábyrgðarsvið.“
Augljóst er hverjum sem fer um meðal fólks að samskipti eru mun frjálslegri en þegar boð og bönn yfirvalda voru tekin bókstaflega og enginn sá fyrir endann á neinu. Nú er annað uppi á teningnum, viðhorfið og umræður breytast. Laga almanna- og sóttvarnayfirvöldin boðskap sinn að því eða verður trúnaðarbrestur? Hann er ekki síður hættulegur en pestin.