Persónunjósnir þá og nú
Stjórnarsinnar treysta sér ekki til málefnalegra andsvara en leggjast í persónunjósnir til að þefa uppi hverjir koma að gerð auglýsinganna. Þetta eru í eðli sínu sömu lúalegu starfshættirnir og leiddu til persónunjósnanna í lok árs 2012. Hræsnin er söm við sig.
Hér var í gær rakið það sem fram kom í ríkissjónvarpsþættinum Kveik að kvöldi 29. apríl. Þetta var gert til að halda efninu til haga hér í dagbókinni. Það fellur að mörgu sem hér hefur verið sagt um hrunið haustið 2008.
Mér er málið skylt því að ég átti hugmyndina að því að koma á fót embætti sérstaks saksóknara og kynnti tillögu um það strax í október 2008 eins og lesa má um hér á síðunni frá þeim tíma. Eitt síðasta embættisverk mitt fyrir stjórnarslitin 1. febrúar 2009 var að skipa Ólaf Þór Hauksson, núverandi héraðssaksóknara, í embætti sérstaks saksóknara. Hann hefur staðið vaktina síðan og tekið á sig ýmsa brotsjói án þess að brotna og gerir það ekki heldur vegna þess sem fram kom í þessum Kveiks-þætti.
Sem dómsmálaráðherra kynntist ég því hvernig markvisst var reynt að grafa undan ákæruvaldinu með rógi um það í Baugsmálinu. Eftir þá reynslu var augljóst í mínum huga að það yrði að styrkja umgjörð rannsókna á efnahagsbrotum og studdi alþingi þá tillögu haustið 2008.
Eftir að lögin voru samþykkt var ráðist á mig fyrir að tryggja nýja embættinu ekki nægar fjárveitingar og látið að því liggja að hugur fylgdi ekki máli. Það var venjulegur vinstri rógur. Það kom síðan í hlut Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra utan þings í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að ýta embættinu úr vör.
Úr auglýsingu SFS þar sem vakin er athygli á að hér er fiskur fullunninn en ekki í Noregi.
Eftir að pistill minn birtist og fór síðan á Facebook 30. apríl komu fram athugasemdir, meðal annars um heimildarvinnu vegna þessa þáttar. Ég minnti þá á að heimildaþættir um heimildaþætti væri víða vinsælt efni. Þannig mætti færa þessa 12 ára gömlu sögu Kveiks núna betur inn í samtímann.
Vilhjálmi Bjarnasyni, fyrrv. alþingismanni, er eðlilega mjög brugðið vegna þess sem kom fram í Kveik um eftirlit með ferðum hans. Hann segir á Vísi 30. apríl:
„Á ég að þurfa að þola það að menn séu að sniglast í kringum mig, elta mig, veita mér eftirför og svo framvegis. Ég á aldrei að þurfa að þola þetta. Og Landssamband lögreglumanna getur aldrei talað um þetta sem mistök.“
Auðvitað voru þetta ekki mistök. Í gildi eru strangar reglur um hvernig löglega skuli staðið að því að fylgjast leynilega með fólki. Þá eru ekki síður ströng ákvæði um hve lengi má geyma efni sem aflað er með slíkum hætti. Hér birtast svo allt í einu í sjónvarpi ríkisins sem lýtur æðstu stjórn fyrrverandi lögreglustjóra rúmlega 12 ára gamlar ólöglegar upptökur af einstaklingum sem mega ekki vamm sitt vita og hafa ekki aðhafst neitt saknæmt.
Það þarf ekki að fara 12 ár til baka til að finna dæmi um að stundaðar séu persónunjósnir á einn eða annan hátt í þágu einhvers málstaðar.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa látið gera snjallar auglýsingar til stuðnings sjónarmiðum sínum vegna áforma ríkisstjórnarinnar um tvöföldun auðlindaskatts.
Stjórnarsinnar treysta sér ekki til málefnalegra andsvara en leggjast í persónunjósnir til að þefa uppi hverjir koma að gerð auglýsinganna. Þetta eru í eðli sínu sömu lúalegu starfshættirnir og leiddu til persónunjósnanna í lok árs 2012. Hræsnin er söm við sig.