11.7.2022 10:31

Persónan ekki pólitíkin

Að lokum hafi Boris Johnson þó fallið vegna vanmáttar hans gagnvart þeirri fjölmiðlastýrðu fullyrðingu að persónan sé sama og pólitíkin.

Eftir að Boris Johnson sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins er hart deilt um hvort honum sé treystandi til að sitja sem starfandi forsætisráðherra þar til nýr flokksleiðtogi komi til sögunnar. Hann hafi fallið á eigin bragði, skapgerð hans og trúnaðarbrestur vegna hennar ráði mestu um örlög hans. Slíkum manni sé ekki unnt að treysta sem starfandi forsætisráðherra. Hann verði að láta af embættinu strax og Dominic Raab varaforsætisráðherra að brúa bilið, hann hafi staðið vel að verki sem staðgengill þegar Boris fékk COVID um árið.

2772Boris Johnson.

Þingmenn Íhaldsflokksins ráða þessu en fræðimenn eins og Frank Furedi, fyrrv. prófessor í félagsfræði við Kent-háskóla, skrifa um stöðuna í blöð og á vefsíður. Í grein á síðunni www.spiked-online.com sunnudaginn 10. júlí skýrir Furedi ástæðuna fyrir því að Boris féll með því að fjölmiðlamenn hafi gegnt lykilhlutverki við að uppræta skilin á milli þess sem er opinbert svið og einkamál. Stjórnmálamenn séu í vaxandi mæli frekar dæmdir eftir persónuleika þeirra og hegðun en eftir árangri í opinberum störfum. Þetta hafi leitt til þess að hneykslunarstjórnmál (e. politics of scandal) ráði opinberum umræðum og þar með sé stuðlað að því að af-stjórnmálavæða þær.

Furedi segir að eftir þingkosningarnar í Bretlandi í desember 2019 hafi fjölmiðlamenn varið miklum kröftum í að afhjúpa hneyksli í einkalífi Johnsons. Þessi hneykslunarárátta hafi oft verið gildishlaðin með hugtakinu „traust“. Vegna hennar hafi umræðum um lykilmálefni samtímans verið ýtt til hliðar.

Að sjálfsögðu hafi skapgerðarbrestir Johnsons stuðlað að falli hann. Að lokum hafi hann þó fallið vegna vanmáttar hans gagnvart þeirri fjölmiðlastýrðu fullyrðingu að persónan sé sama og pólitíkin. Þar til takist að kúvenda þessari formúlu og tryggja á ný að það sem er opinbert sé rætt á pólitískum forsendum verði hvaða stjórnmálamanni sem er erfitt að veita ósvikna pólitíska forystu.

Furedi segir að ekki sé auðvelt að breyta þessu þar sem fjölmiðlamennirnir séu í bandalagi við nýju ráðandi stéttina (e. the new establishment). Stórborgar-elítan, embættismannakerfið og fjöldi frjálsra félagasamtaka geti ávallt treyst því að fjölmiðlar líti til með þeim. Þótt nýja ráðandi stéttin hafi átt undir högg að sækja í kosningum haldi hún völdum með tökum sínum á fjölmiðlum. Þess vegna hafi henni tekist að hindra Johnson-stjórnina í að hrinda stefnuskrá sinni í framkvæmd af alvöru. Ríkisstjórnin hafi af sinni hálfu ekki áttað sig á því að til þess að ná pólitísku frumkvæði yrði hún að takast á við eyðileggjandi áhrif fjölmiðlanna.

Hér skal ekki vitnað frekar í þessa grein eftir Frank Furedi, hún er opin öllum sem hafa áhuga á að kynna sér efni vefsíðunnar spiked! Heiti síðunnar vísar til efnis sem ekki á almennt upp á pallborðið hjá ritstjórum fjölmiðlanna.

Greining Furedis um að skilin á milli persónu og pólitíkur stjórnmálamanna séu að hverfa í umræðum um stjórnmál á ekki síður erindi hér á landi en í Bretlandi. Sé þessi mælistika notuð til að leggja mat á umræður hér er sífellt oftar „hjólað í manninn en ekki boltann“ eins og það er orðað. Alkunnar eru rispurnar sem fjölmiðlamenn taka í samvinnu við stjórnmálafræðinga og stjórnarandstæðinga gegn einstökum stjórnmálamönnum eða forystumönnum í atvinnulífi.