12.4.2020 11:20

Páskar með streymdum messum

Með tækninni má sameina milljarða manna á einni stundu um orð sem allir kristnir menn þekkja og frásögn sem boðar líf og ljós þrátt fyrir þjáningu og dauða.

Gleðilega páska!

Í dag er okkur fluttur páskaboðskapurinn með streymi á netinu úr mannlausum kirkjum. Frans páfi söng páskamessu í mannauðri Péturskirkjunni. Aðeins fáeinir einstaklingar sátu í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum á nokkrum bekkjum framan við altarið. Þá var fámennur sönghópur í kirkjunni. Fjarlægðarmyndir sýndu tómt kirkjuskipið og Péturstorgið var autt.

Boðskapur páskanna höfðar á annan veg til okkar við þessar aðstæður en endranær og þegar hann er fluttur á þann hátt sem gert er núna, beint til þess sem hlustar og/eða horfir við tæki sitt, oft í mikilli einsemd, magnast áhrifin. Með tækninni má sameina milljarða manna á einni stundu um orð sem allir kristnir menn þekkja og frásögn sem boðar líf og ljós þrátt fyrir þjáningu og dauða.

74d884f9fe90eb8f52fc4c60cccc423fd1d1ae629fa07d48bd9571d49456e6a0Frá páfamessu í Péturskirkjunni á páskadag.

Strax eftir síðari heimsstyrjöldina vakti bók eftir Austurríkismanninn Viktor E. Frankl (1905-1997) mikla athygli. Hann sat í fangabúðum nazista í Auschwitz og Dachau. Nokkrum dögum eftir að hann var látinn laus í stríðslok skrifaði hann138 bls. bók og birti sálfræðilega úttekt eða greiningu reista á reynslu sinni. Hún varð grundvöllur þess sem nefnist lógóþerapía í fræðunum.

Um 50 árum síðar (1996) kom bókin út í íslenskri þýðingu Hólmfríðar K. Gunnarsdóttur undir heitinu Leitin að tilgangi lífsins. Háskólaútgáfan hefur endurútgefið bókina og er augljóst að hún höfðar ekki síður til Íslendinga en annarra. Hennar sést nú víða getið þegar rætt er um viðbrögð einstaklinga við heimsfaraldrinum.

Kjarni þess sem Viktor E. Frankl boðar felst í þessari setningu:

„Við megum aldrei gleyma því að við getum fundið tilgang í lífinu, jafnvel þótt við séum í vonlausri aðstöðu gagnvart örlögum sem ekki verða umflúin.“

Viktor E. Frankl starfaði sem sálfræðingur og boðaði að við gætum ekki komist hjá þjáningu en hefðum val um hvernig við tækjumst á við hana, finna mætti tilgang í henni og sækja fram með endurnýjað markmið í huga. Lífsfylling fælist í að einstaklingur skynjaði hvað hefði tilgang fyrir hann persónulega og hann nyti sín í samræmi við það.

Á ensku heitir þessi fræga bóks Frankls Man's Search for Meaning. Segir að hún hafi selst í meira en 10 milljón eintökum áður en Frankl dó árið 1997 og verið þýdd á 24 tungumál. Þegar Library of Congress, þjóðarbókasafn Bandaríkjanna, spurði lesendur árið 1991 hvaða bók hefði „breytt lífi þínu“ reyndist þessi bók Frankls meðal 10 áhrifamestu bóka í Bandaríkjunum.