13.3.2019 10:00

Pandóru-askjan opnuð í Efstaleiti

Þeir opna að dómi minnihluta réttarins Pandóru-öskju án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað upp úr henni kemur. Augljóst er hvað kom upp úr henni í Efstaleiti.

Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá, auglýstu Silli og Valdi á sínum tíma, öruggIr um að þeir hefðu alltaf góða vöru á boðstólum. Af orðunum skulið þið þekkja þá, má segja um fréttamenn ríkisútvarpsins.

Þetta kom í hugann í gær þegar hlustað var á fyrstu fréttir af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í ríkisútvarpinu í landsréttarmálinu. Þar var því strax slegið föstu klukkan 09.00 þegar fyrsta frétt var flutt að íslenska ríkið hefði verið dæmt til að greiða 15.000 evrur í bætur. Þarna var þó um að ræða greiðslu á hluta málskostnaðarkröfu stefnanda. Dómurinn hafnaði kröfu hans um bætur.

Open-pandoras-box-by-sofia-wellmanÞegar þessi villa í fréttinni lá fyrir hlupu fréttamenn ríkisútvarpsins út á Facebook til að segja að þetta skipti bara engu máli. Það væri nú ekki neinn munur á að fá greiddar bætur eða hluta málskostnaðar, að gera veður út af slíku væri að beina athygli að aukaatriði. Á þessu tvennu er þó grundvallarmunur. Ástæðan fyrir að fréttamennirnir vildu tala villuna niður var að dómur um bætur gerði hlut dómsmálaráðherra verri en ella hefði verið.

Í hádegisfréttum 12. mars tók fréttastofan að boða hlustendum sínum að dómsmálaráðherra hefði framið „svívirðilegt“ brot. Á þann veg kaus fréttamaðurinn að þýða enska orðið flagrant en á íslensku lagamáli er talað um „skýlaust“ eða „augljóst“ brot í tilvikum sem þessum. Orðaval fréttastofunnar miðaði hins vegar enn að því að gera hlut dómsmálaráðherra sem verstan. Einhverjum í Efstaleiti kann meira að segja að hafa blöskrað þessi öfgafulla orðnotkun, henni var hætt eftir að fréttakona gerði tilraun til að setja dómsmálaráðherra út af laginu með frekju í beinni útsendingu.

Við svo búið var augljóst að hlusta yrði á allar frásagnir ríkisútvarpsins af þessum dómi MDE með fyrirvara. Enn einu sinni hefðu fréttamenn ákveðið að halda með þeim sem vilja að dómarar ráði sjálfir hverjir sitja í dómaraembættum og vega að þeim ráðherra sem „vogar“ sér að hafa aðra skoðun og vinna að því að bola honum úr embætti. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið.

Niðurstaða meirihluta MDE í landsréttarmálinu tekur ekki aðeins mið af því að dómararnir telja forseta Íslands, alþingi, hæstarétt og ráðherra hafa brotið lög heldur einnig hinu að þeir tala til stjórnvalda í öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þeir opna að dómi minnihluta réttarins Pandóru-öskju án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað upp úr henni kemur. Augljóst er hvað kom upp úr henni í Efstaleiti.

Íslenska ríkið hlýtur að áfrýja málinu til æðra dómstigs í Strassborg. Það er ekki unnt að eiga hlut að því að þessi askja sé opin. Þá hlýtur íslenska ríkið að beita sér með öðrum fyrir því að dómurum við MDE sé gert skylt að túlka lög en ekki setja þau. MDE hefur tapað trausti vegna frjálslegra lögskýringa dómaranna þar.