5.12.2020 10:46

Páll Pétursson kvaddur

Við Páll sátum saman í utanríkismálanefnd alþingis 1991 til 1995 og ræddum EES-samninginn á tugum funda án þess að verða sammála.

Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, er borinn til grafar í dag. Við sátum saman í ríkisstjórn 1995 til 2002. Hann var fylginn sér og sinnti málaflokkum sínum af atorku.

Fyrstu kynni mín af Páli sem stjórnmálamanni voru þegar ég settist á þing að loknum kosningum 1991 þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu stjórn og framsóknarmenn undu því illa að sitja í stjórnarandstöðu. Reiði þeirra magnaðist við að stjórnarandstæðingar áttu ekki fulltrúa í fyrstu forsætisnefnd þingsins sem starfaði nú í einni deild.

Þetta varð tilefni langra þingfunda og reiðilestra yfir okkur sem sátum í forsætisnefnd þingsins undir forystu Salóme Þorkelsdóttur þingforseta. Skiptumst við á að stjórna löngum næturfundum þar sem Páll Pétursson flutti oft þrumandi ræður sem þingflokksformaður framsóknarmanna.

Nú sé ég í minningargrein eftir Finn Ingólfsson, samflokksmann og samþingmann Páls, að innan eigin þingflokks glímdi Páll við menn sem hann kallaði „hælbítana“ á þessum árum.

Rikis-do-23-4-95_1607165152946Ríkisráðsfundur 23. apríl 1995, annað ráðuneyti Davíðs Oddsonar.

Við Páll sátum saman í utanríkismálanefnd alþingis 1991 til 1995 og ræddum EES-samninginn á tugum funda án þess að verða sammála. Við vorum ekki heldur sammála um úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu sem var samþykkt í andstöðu við mig að tillögu Þorsteins Pálssonar sjávarútvegsráðherra sem taldi að þar með yrði „rétturinn“ til hvalveiða tryggður. Ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan sameinaðist og sannaði mér að slík samstaða lofar sjaldan góðu.

Undir lok kjörtímabilsins 1995 fórum við Páll og aðrir utanríkismálanefndarmenn í heimsókn til Washington og hittum þar embættis- og stjórnmálamenn. Nutum við þess meðal annars hve mikil tengsl samnefndarmaður okkar, Ólafur Ragnar Grímsson, hafði ræktað við ýmsa bandaríska áhrifamenn. Samtöl við bandaríska ráðamenn í ferðinni sönnuðu að úrsögnin úr Alþjóðahvalveiðiráðinu yrði Íslendingum ekki til gagns enda var gengið í ráðið að nýju til að hefja hvalveiðar!

Miðað við EES-andstöðu Páls kom á óvart að lesa í minningargrein Vilhjálms Egilssonar sem sat í EFTA-þingmannanefndinni með Páli að gömul kynni Páls við breskan lávarð, íhaldsmann á ESB-þinginu, greiddu fyrir afgreiðslu EES-samningsins á því þingi.

Samvinna okkar Guðmundar Bjarnasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á Evrópuráðsþinginu í Strassborg var góð og brutum við ísinn milli flokka okkar í samtali um páskana 1995 sem leiddi til að Sjálfstæðisflokkurinn sagði skilið við Alþýðuflokkinn og myndaði stjórn með Framsóknarflokknum.

Fyrstu ár tíunda áratugarins þegar EES-vegferð Íslands hófst voru umbrotatímar og íslenskt þjóðlíf tók á sig nýja mynd sem skapaði betri lífskjör en áður þekktust. Að með EES-aðildinni hafi Íslendingar afsalað sér fullveldi eða valdi til að segja nei telji þeir á rétt sinn gengið vegna aðildarinnar eða af öðrum sökum er bábilja. Ágreiningur um tilefni, túlkun og afleiðingar er nú eins og jafnan áður. Hann er eðlilegur í lýðræðis- og þingræðisríki, þrátt fyrir hann starfa menn saman að þjóðarheill.

Blessuð sé minning Páls Péturssonar.