Páfi biður fyrir friði
„Aldrei aftur stríð!“ hrópaði páfi þegar hann minntist endaloka annarrar heimsstyrjaldarinnar fyrir 80 árum. Leó vitnaði í Frans páfa þegar hann harmaði átökin um heim allan um þessar mundir og sagði að þau væru „þriðja heimsstyrjöldin í bútum“.
Leó páfi XIV. fór með fyrstu sunnudagsbæn sína á svölum Péturkirkjunnar í Róm 11. maí. Tugir þúsunda manna voru á torginu fyrir framan kirkjuna eins og síðdegis fimmtudaginn 8. maí þegar nýkjörinn páfinn birtist á svölunum og fór með friðarbæn. Að þessu sinni helgaði páfi Maríu guðsmóður bæn sína.
Páfinn hvatti til varanlegs friðar í Úkraínu og að tafarlaust yrði gert vopnahlé í átökunum á Gaza samhliða afhendingu gísla og mannúðaraðstoð.
„Aldrei aftur stríð!“ hrópaði páfi þegar hann minntist endaloka annarrar heimsstyrjaldarinnar fyrir 80 árum. Leó vitnaði í Frans páfa þegar hann harmaði átökin um heim allan um þessar mundir og sagði að þau væru „þriðja heimsstyrjöldin í bútum“.
Leo XIV. páfi flytur sunnudagdsbæn á svölum Péturskirkjjunnar 11. maí 2025.
Í fréttum RÚV, ríkisútvarpsins, var að morgni sunnudagsins 11. maí vitnað í orð páfa í viðtali við perúska miðilinn Semanario Expresión um að Úkraínustríðið væri „sönn innrás, heimsvaldasinnuð í eðli sínu, þar sem Rússland leitast við að leggja undir sig landsvæði af valdaástæðum,“ eins og segir á ruv.is
Fréttamaðurinn sagði þessi ummæli Leós mun beinskeyttari en nokkuð sem forveri hans, Frans heitinn páfi, hefði látið „út úr sér um stríðið í Úkraínu“. Hann hefði forðast „að gagnrýna Rússland eða Vladímír Pútín Rússlandsforseta beint fyrir að hefja innrásina“. Fréttamaðurinn sló jafnframt þennan varnagla: „Ef eitthvað er að marka ummæli Leós í viðtalinu virðist hann ekki eins varfærinn um málið og forveri sinn.“
Það sætir tíðindum að orð páfa séu dregin í efa. Líklegt er þó að fréttamaðurinn hafi frekar viljað vara hlustendur við að trúa þessum fjölmiðli sem til var vitnað en sjálfum páfanum. Hvers vegna?
Að kenna það við varfærni að segja ekki sannleikann um hvers vegna barist er í Úkraínu er hæpið. Nærtækara er að segja að í því felist diplómatísk friðþæging í garð Pútins að finna honum eitthvað til málsbóta.
Afsakanir fyrir Pútin duga ekki sem skýringar á stríði hans. Honum er kappsmál að þurrka Úkraínu út af kortinu. Ljóst er að honum tekst það ekki. Laugardaginn 10. maí voru leiðtogar Þýskalands, Frakklands, Póllands og Bretlands í Kyiv til að árétta óbugaðan stuðning sinn við Úkraínu.
Nýjar vonir um að Pútin kunni að fallast á 30 daga vopnahlé hafa vaknað í dag. Hvort þær rætist með stuðningi bæna nýs páfa kemur í ljós.