Óvissa um ESB-samtöl og varnir
Forsætisráðherra lýsir mun betur en utanríkisráðherra að hverju áhugi ESB beinist í viðræðum um öryggis- og varnarmál við íslenska ráðamenn.
Þrátt fyrir allar fjölsóttu ráðstefnurnar og fundina sem efnt er til um þessar mundir um utanríkis-, öryggis- og varnarmál er enn á huldu hvað í raun vakir fyrir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur.
Það er greinilegur áherslumunur milli Samfylkingarinnar og Viðreisnar um ýmislegt sem varðar framkvæmd þess ákvæðis stjórnarsáttmálans „að eigi síðar en árið 2027“ skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Áhrifamenn innan Viðreisnar hafa viðrað þá hugmynd að vegna framgöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta ætti að efna til þessarar atkvæðagreiðslu sem fyrst, jafnvel fyrir lok ársins í ár. Forsætisráðherra hafnar því.
Kristrún Frostadóttir og Ursula von der Leyen í Brussel 9. apríl 2025 (mynd: ESB).
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var í Brussel í liðinni viku og ræddi við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Antonio Costa, forseta leiðtogaráðs ESB.
Í samtali við Kristrúnu á mbl.is 9. apríl kemur fram að á fundunum með þessum forystumönnum ESB hafi hún rætt um öryggis- og varnarmál.
„Við ræddum öryggis- og varnarmálin talsvert, stöðuna í Norður-Atlantshafinu og á norðurslóðum. Þau hafa mikinn áhuga og eru forvitin um hvað er að gerast þarna á okkar svæði. Þau spurðu mikið út í stöðu varnar- og öryggismála í landinu og hafa áhuga á því að heyra af því. Það er vilji, sem að byggir á fyrri samtölum, um að efla frekar samstarf þessara landa á sviði öryggismála og það var rætt um möguleika í því samhengi,“ sagði forsætisráðherra um samtalið við Von der Leyen.
Um samtalið við Costa sagði hún:
„Það kom upp umræða sérstaklega er varðar sæstrengi og meðvitund um mikilvægi sæstrengjanna í kringum Ísland og hlutverk landhelgisgæslunnar í því samhengi, sem þeim þótti mjög áhugavert. Þeim þótti líka áhugavert að heyra af okkar eftirlitsgetu þarna á svæðinu, sem er gríðarleg og mjög víðfeðm.“
Forsætisráðherra lýsir mun betur en utanríkisráðherra að hverju áhugi ESB beinist í viðræðum um öryggis- og varnarmál við íslenska ráðamenn. Þar er um þætti að ræða sem snúa að starfsemi borgaralegra íslenskra stofnana. Samstarf við ESB á þessum sviðum er raunhæfur kostur sem ætti að skoða til hlítar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fer hins vegar um víðan völl í tali sínu um þætti sem snúa að hermálum og þar með aðildinni að NATO, varnarsamningnum við Bandaríkin og varnarsamstarfinu við Norðurlöndin. ESB hefur ekkert fram að færa í hermálum sem eykur öryggi okkar eins og ætla mætti af orðum utanríkisráðherra.
Í samtali við Morgunblaðið í dag (15. apríl) líkir Þorgerður Katrín ákvörðun Dana um að falla frá pólitískum fyrirvörum sínum um þátttöku í samráði ESB-ríkjanna um varnarmál við ákvörðun Svía og Finna um að ganga í NATO. Þessi skrýtna samlíking er sett fram til að rugla umræðurnar og fegra óljósan málstað ráðherrans.
Málflutningur formanns Viðreisnar þegar kemur að ESB einkennist af gagnsæjum málflutningsæfingum en ekki raunverulegri hagsmunagæslu.