4.12.2018 9:31

Óvirðing við þingmenn þar og hér

Hugsanlegt er talið að meirihlutinn ákveði að vísa Cox á brott úr þingsalnum fyrir að sýna þinginu óvirðingu.

Fimm daga umræður um skilnaðarsamkomulag Breta og ESB (Brexit) hefjast í breska þinginu í dag (4. desember). Stefnt er að atkvæðagreiðslu um tillögu Theresu May forsætisráðherra þriðjudaginn 11. desember. Umræðurnar standa í átta klukkustundir hvern dag.

Áður en efnislegu umræðurnar hefjast verður tekist á um stjórnskipulegt álitamál. Þingmenn hafa krafist þess að fá aðgang að öllum lögfræðilegum álitsgerðum sem ríkisstjórnin hefur fengið vegna skilnaðarsamkomulagsins. Þessu hefur ríkisstjórnin hafnað og segist ætla að leggja útdrátt úr skjölunum fyrir þingmenn. Þeir andmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar hástöfum og saka hana um að sýna þinginu óvirðingu.

Að kvöldi mánudags 3. desember komst John Bercow, forseti neðri deildar þingsins, að þeirri niðurstöðu að „rökstyðja mætti að þinginu væri sýnd óvirðing“ og varð við tilmælum um sérstaka umræðu og atkvæðagreiðslu um málið áður en efnisumræður um Brexit hefjast.

Geoffrey Cox, löggjafarráðherra (Attorney General), sætir ámæli þingmanna fyrir framgöngu sína og hugsanlegt er talið að meirihlutinn ákveði að vísa honum á brott úr þingsalnum fyrir að sýna þinginu óvirðingu.

19390093_303

Óvirðingin sem alþingi var sýnd með fundi forráðamanna þingflokka Miðflokksins og Fólks flokksins á Klausturkránni þriðjudaginn 20. nóvember leiðir ekki til þess að meirihluti þingmanna geti vísað sexmenningunum sem sátu fundinn úr þingsalnum. Þingsköp leyfa það ekki.

Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, hafa tekið sér tímabundið, launalaust leyfi frá störfum. Tveimur þingmönnum Flokks fólksins, Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, hefur verið vísað úr flokknum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist ætla að sitja sem fastast en flokkssystir hans Anna Kolbrún Árnadóttir í Miðflokki segist enn hugsi yfir eigin framtíð.

Forsætisnefnd alþingis ákvað í fyrsta sinn í sögunni mánudaginn 3. desember að leita ráða hjá siðanefnd þingsins. Er málið nú sagt „í þinglegum farvegi“. Siðanefndin veitir forsætisnefnd ráð. Þingmenn ráða sjálfir hvort þeir sitja eða ekki. Skoðanakönnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti svarenda vill þingmennina á brott af þingi.