25.9.2019 10:56

Óvirðing við „öll mannleg siðalögmál“

Viðbrögð formannsins eru í samræmi við framkomuna gagnvart þeim sem störfuðu á skrifstofu Eflingar áður en Sólveig Anna kom þangað með sellufélögum sínum í Sósíalistaflokki Íslands.

Hér hefur undanfarna daga verið vakin athygli á því sem fyrrverandi starfsmenn Eflingar stéttarfélags hafa sagt um samskipti sín við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann félagsins, og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra félagsins. Að um þetta hafi verið skrifað hér varð til þess að Sólveig Anna sagði um höfundinn að hann væri „ömurlegur afturhaldstittur og mykjudreifari“. Það væri „eitt af því sem er mest vitað af öllu vituðu“.

Viðbrögð formannsins eru í samræmi við framkomuna gagnvart þeim sem störfuðu á skrifstofu Eflingar áður en Sólveig Anna kom þangað með sellufélögum sínum í Sósíalistaflokki Íslands. Viðar, hugmyndafræðingur og lagasmiður sósíalista, tók að sér að stjórna hreinsunum á skrifstofunni en Gunnar Smári Egilsson varð málsvarinn út á við. Af því sem sagt hefur verið í tilefni af valdatökunni bregst þetta fólk verst við þegar minnst á fréttir um greiðslur úr sjóðum félagsins til eiginkonu Gunnars Smára.

1160296Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þráinn Hallgrímsson var skrifstofustjóri Eflingar við valdatöku Sólveigar Önnu og klíku hennar. Hann lýsir sinni hlið mála í grein í Morgunblaðinu í dag (25. september) og segir formann Eflingar hafa sýnt sér „svívirðilega framkomu“ á starfsmannafundi í maí 2018. Síðan hafi Sólveig og félagar „brotið öll mannleg siðalögmál í samskiptum við starfsmenn“ Eflingar.

Fjármálastjóra og bókara félagsins var ýtt til hliðar á þann hátt að síðan „hafa þær báðar glímt við vanheilsu og þurft að leita læknis- og sálfræðiaðstoðar,“ segir Þráinn og einnig:

„Þær höfðu alla tíð beitt ýtrasta aðhaldi og eftirliti við alla fjármálagerninga. Í fjölmiðlum hefur komið fram að í þessu aðhaldi sé að leita skýringanna á framkomu forystumanna Eflingar.“

Þarna víkur hann að því sem fram hefur komið um að þær hafi viljað leita samþykki stjórnar við greiðslu til eiginkonu Gunnars Smára Egilssonar.
Undir lok greinarinnar segir Þráinn Hallgrímsson:

„Alls hafa forystumenn Eflingar nú rekið eða afþakkað störf a.m.k. sex starfsmanna og á annan tug starfsmanna hafa verið skráðir langtímaveikir eða veikir mánuðum saman á þessu tímabili. Þetta hefur aldrei þekkst á Eflingu fyrr en nú. Þá hefur forystan rekið úr starfi a.m.k einn starfsmann sem hún réði sjálf til að stjórna verkfallsmálum. Nú ræðir forysta félagsins hvort reka eigi stjórnarmann sem „lætur ekki að stjórn“. Þetta eru dæmi um hreinsanir og ógnarstjórn eftir byltingu.

Mín skoðun er sú að hin nýja stétt í forystu Eflingar stefni að því að hreinsa út alla starfsmenn og þekkingu sem kemur úr eldra umhverfi félagsins.

Brottrekstur og langtímaveikindi reyndra starfsmanna hlýtur að segja til sín fyrr en síðar í þjónustu við félagsmenn.“

Undir millifyrirsögninni: Á eftir byltingunni kemur ógnarstjórn segir:

„Það er alkunna að öllum byltingum fylgir ógnarstjórn meðan nýir valdhafar eru að ná tökum á stöðunni. Hin „nýja stétt“ yfirmanna á Eflingu tamdi sér þann stjórnunarstíl að þeir sem andmæltu þeim eða reyndu að leiðbeina þeim féllu þegar í stað í ónáð. Annaðhvort var að hlýða yfirmönnum í einu og öllu eða taka pokann sinn. Þetta var þeim mun alvarlegra vegna þess að starfsmenn sem urðu fyrir þessari framkomu höfðu langa reynslu og víðtæka þekkingu af starfi fyrir félagið.“

Fleiri orð þarf í raun ekki að hafa um það sem vakir fyrir félögum í Sósíalistaflokki Íslands með valdatökunni í Eflingu. Hún heppnaðist með 2099 atkvæðum í 27.000 manna félagi.