Óvænta upphlaupið vegna 3. orkupakkans
Áhugamenn um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi ættu að grandskoða umræðurnar um aðild Íslands að þeim þætti EES-samstarfsins sem snýr að orkumálum. Af þeim sést að samhengi hlutanna getur rofnað vegna íhlutunar að utan.
Áhugamenn um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi ættu að grandskoða umræðurnar um aðild Íslands að þeim þætti EES-samstarfsins sem snýr að orkumálum. Af þeim sést að samhengi hlutanna getur rofnað vegna íhlutunar að utan.
Stefnumótun og lagasetning ESB um innri markað raforku var ekki langt komin við lögfestingu EES samningsins 1993. Svonefndur fjórði viðauki hefur á hinn bóginn verið hluti EES-samningsins frá upphafi en hann snýr að orku.
Fyrsta raforkutilskipun ESB er frá 19. desember 1996. Frá þeim tíma hefur raforka verið skilgreind eins og hver önnur vara á innri markaði ESB. Þar með kom til sögunnar krafan um að samkeppni væri á þeim markaði eins og öðrum innan EES.
Ítarlega var rætt um þessi mál á alþingi og annars staðar eftir að tilskipunin kom til sögunnar og var hún innleidd hér með raforkulögum nr. 65/2003.
Annar orkupakkinn var tekinn inn í EES samninginn 2005. Íslensk stjórnvöld gerðu fyrirvara sem hlutu samþykki á EES-vettvangi. Var annar orkupakkinn innleiddur hér með breytingum á raforkulögum nr. 58/2008. Sérstakt rannsóknarefni er hvort og hvernig þessir fyrirvarar hafa verið nýttir.
ESB innleiddi þriðja orkupakkann árið 2009. Alþingi var kynnt málið árið 2010 og fóru fram viðræður milli embættismanna og þingmanna sem leiddu meðal annars til þess að á EES-vettvangi var árið 2017 fallist á svonefnda tveggja stoða lausn gagnvart EFTA/EES-ríkjunum: Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er slíkrar lausnar krafist vegna skilyrða sem sett voru strax árið 1993 í nafni fullveldis. Sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun árið 2017 um að innleiða ætti þriðja orkupakkann í EES-samninginn. Það verður gert eftir samþykki alþingis.
Heitar umræður urðu um málið í Noregi og beittu andstæðingar EES-samstarfsins sér hart í þeim en urðu undir og stórþingið samþykkti aðild Norðmanna. Eftir það sneru minnihlutamenn, andstæðingar EES-samstarfsins, sér að Íslendingum og snemma árs 2018 urðu allt í einu umræður hér um stórkostlega hættu af þessum þriðja orkupakka. Var landsfundur sjálfstæðismanna í mars 2018 „tekinn í bólinu“ eins og sést af ályktun fundarins sem sögð er snúast um 3. orkupakkann en gerir það ekki þegar efni hans er skoðað.
Hér gætir þess sama og í Noregi að taka skuli EES-samninginn í gíslingu vegna þessa máls.