26.12.2023 10:37

Ótvírætt gildi textunar

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að textun hófst í ríkissjónvarpinu hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði. Enn má þó gera betur.

Standi tölustafirnir 888 efst í hægra horni á skjá ríkissjónvarpsins þýðir það að með því að slá þessar tölur í textavarpinu birtist textun talaðs máls á skjánum. Þetta auðveldar heyrnardaufum og öllum öðrum að skilja það sem sagt er.

Þessi frétt birtist í ríkissjónvarpinu 13. mars 2013:

„Sjónvarpsfréttir verða sendar út með texta frá og með deginum í dag. Þjónustan verður í fyrstu bundin við aðalfréttatímann, en verður síðar tekin upp í fréttum sjónvarps klukkan tíu og í fréttatengdum þáttum. Textinn birtist á síðu 888 í textavarpinu. Beinar fréttasendingar verða jafnframt textaðar.“

Menningarráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir svaraði 16. ágúst 2019 spurningu Margrétar Tryggvadóttur, þáv. alþingismanns, um textun á innlendu sjónvarpsefni og sagði meðal annars í svarinu:

„Allur skjátexti með innlendu efni í línulegri sjónvarpsdagskrá er sendur út á síðu 888 í textavarpi. Forunnið innlent efni er með forunnum texta. Aðalfréttatími í sjónvarpi kl. 19 er í beinni útsendingu og er textinn einnig sendur út beint á síðu 888. Íþróttafréttir að loknum fréttum kl. 19 eru sendar út með texta á síðu 888. Veðurfréttir og fréttir kl. 22 eru ekki sendar út með texta. Fréttaskýringaþátturinn Kastljós er textaður að lokinni beinni útsendingu og endursýndur með 888-texta í lok dagskrár sama kvöld.“

Þá segir að í aðdraganda kosninga séu umræðuþættir og viðtöl send út með texta en rittúlkur kallaður til í beinum útsendingum. RÚV hafi aðeins aðgang að tveimur rittúlkum. Sérhæfður túlkur túlki það sem sagt sé og skili því af sér sem rituðu máli, það er að segja sem skjátexta. Slíkt útheimti þekkingu á túlkun og mikla þjálfun.

Sjonvarpsfrettatextun.max-1200x900

Ráðherrann sagði árið 2019 að ekki væri hægt að nota talgreini til að texta beinar útsendingar vegna þess að ekki væri völ á fullnægjandi búnaði sem þekkti og gæti greint íslenskt tal.

Frá því að þetta svar var gefið hafa orðið miklar framfarir í þessum efnum. Má til dæmis ráða af áhorfi á textaðar norrænar stöðvar að í beinum útsendingum þar sé meira stuðst við gervigreind en áður og hún hafi komið í stað rittúlka. Þótt ekki skuli neitt fullyrt í þessu efni má sjá að innsláttarvillum fækkar og hraði túlkunarinnar fellur betur en áður að hraða talmálsins.

Í norrænu stöðvunum er þess gætt að innlendi textinn sé á þeim stað að hann leggist ekki yfir kynningu á viðmælanda eða annað sem birtist samtímis á skjánum. Hjá ríkissjónvarpinu er allur gangur á þessu. Virðist ekki sömu reglu fylgt í öllum tilvikum.

Einkennilegt er að sjá texta með íslenskum kvikmyndum birtast löngu eftir að leikarinn fer með hann á skjánum. Í raun er þar um skemmd á kvikmyndinni að ræða sem fælir áhorfendur frá henni.

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að textun hófst í ríkissjónvarpinu hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði. Enn má þó gera betur. Á tímum þegar lesskilningi hnignar er textun talaðs íslensks máls á skjánum liður í að auka læsi fyrir utan gildi hennar fyrir þá sem njóta ekki efnis án textunar.