Ótti Egils
Sanngirni ræður ekki afstöðu til manna og málefna í stjórnmálum. Kalt mat Katrínar er að stjórnin eigi bara að vinna áfram að því sem boðað var á liðnu hausti.
Vegna niðurstöðu í þjóðarpúlsi Gallups um mánaðamótin sem sýndi að VG næði ekki 5% markinu til að fá þingmann kjörinn sagði álitsgjafinn Egill Helgason á Facebook 1. mars:
„Spurning hvort VG geti setið í ríkisstjórn lengur þegar fylgið er orðið svona lítið. Ég gæti reyndar vel hugsað mér Katrínu Jakobsdóttur sem forseta. En kosningar á þessum tímapunkti yrði hryllingur. Það væri leikur einn fyrir flokka að haga málum þannig að þær myndu allar snúast um innflytjendur og hælisleitendur. Erum þegar komin með upptaktinn að því.“
Katrín Jakobsdóttiur flytur setningarræðu á flokksráðsfundi VG 1. mars 2024 (mbl.is/Árni Sæberg).
Svarið við spurningunni er að VG getur setið áfram í ríkisstjórn eins lengi og meirihluti þingmanna samþykkir það. Á flokksráðsfundi 1. mars sagði Katrín Jakobsdóttir að VG mundi ná sér á strik að nýju. Í samtali við mbl.is 1. mars sagði hún þetta ekki „sanngjarna niðurstöðu“ fyrir VG sem leitt hefði ríkisstjórnina „í gegnum síendurteknar hamfarir“ og haldið vel á málum. Bágt fylgi í könnunum hlyti að vekja þau öll „í hreyfingunni til hugsunar um okkar stöðu“, þetta væri „ekki ásættanleg staða“.
Sanngirni ræður ekki afstöðu til manna og málefna í stjórnmálum. Kalt mat Katrínar er að stjórnin eigi bara að vinna áfram að því sem boðað var á liðnu hausti, mikilvægasta verkefnið sé að ná niður verðbólgunni „til að hægt verði að lækka vexti“. Aðgerðir í tengslum við kjarasamninga séu lykill að því. Hinn lykillinn sé að stjórnarflokkarnir nái saman um fjármálaáætlun næstu ára. Þetta er skýrt og afdráttarlaust. Séu stjórnarflokkarnir sammála um þessi mál lifir stjórnin hvað sem líður ágreiningi um annað.
Að Katrín Jakobsdóttir bjóði sig fram til forseta blundar með Agli Helgasyni. Staðfesta Katrínar í þágu markmiðanna sem stjórn hennar setti sér á liðnu hausti setur forsetaframboði hennar skorður. Þá er erfitt að líta á Bessastaði sem björgunarbát frá sökkvandi flokki.
Þriðji liðurinn í áliti Egils sýnir að samfylkingarfólk vill ekki kosningar núna af ótta við að þær snúist um málið sem klýfur flokk þess ofan í rót, afstöðuna til útlendingamála. Samfylkingin er dæmigerður vinstri flokkur, hann ræður ekki við tilfinningaríkar umræður af þessu tagi. Þar er staðan svipuð og innan breska Verkamannaflokksins. Flokksleiðtoginn Sir Keir Starmer afskrifaði frambjóðanda flokksins í aukakosningum í Rochdale-kjördæmi 29. febrúar vegna gyðingahaturs. Sigurvegari var sósíalistinn George Gallaway sem ógnar Verkamannaflokknum frá vinstri og með andúð á Ísrael og stuðningi við málstað Hamas.
Innan Samfylkingarinnar er hópur fólks sem berst fyrir svipuðum sjónarmiðum og Gallaway og höfðar til þeirra sem nú yfirgefa VG vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum. Hvað gerist nú innan Samfylkingarinnar þegar flokksformaðurinn, Kristrún Frostadóttir, segist styðja útlendingastefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?
Gömlu þungavigtarmennirnir innan Samfylkingarinnar óttast umræðurnar um útlendingamálin. Þeim er kappsmál að stjórn Katrínar Jakobsdóttur sitji sem lengst í von um að tíminn ýti útlendingamálunum til hliðar í huga fólks – það er ekki til svo einföld lausn á því máli frekar en mörgum öðrum.