3.10.2019 9:08

Óþarft að finna upp hjólið vegna heilsueflingar

Fyrir okkur sem árum saman höfum stundað sund og qi gong fyrir utan gönguferðir kemur ekkert af því sem að ofan segir á óvart nema hikið í orðum ráðherrans.

Í frétt á ruv.is þriðjudaginn 1. október sagði:

„Janus Guðlaugsson doktor í heilsueflingu aldraðra leggur til að meiri kraftur verði lagður í allsherjar heilsueflingu eldra fólks á borgarafundi í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. „Það þarf að ýta inn heilsutengdum forvörnum að krafti. Við þurfum að setja af stað sjóð sem er til að efla heilsutengdar forvarnir þá í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig að þau geti sótt í þennan sjóð,“ segir Janus.

Efla þarf heilsutengdar forvarnir um allt land að mati Janusar. „Eini möguleikinn að mínu viti til að bregðast við þessum lífsstílssjúkdómi - bæta mataræðið og vinna með þetta fólk í markvissri þjálfun,“ segir hann.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tekur undir það. „Það sem liggur í orðum Janusar er að stefna okkar er kolröng. Við erum að sóa fjármunum í heilbrigðiskerfinu, með því að leggja ekki meiri áherslu á lýðheilsustefnuna,“ segir Óli Björn. „Fjárfesting í lýðheilsu er líklega arðbærasta fjárfesting sem þessi þjóð getur farið í.“

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segir átak í heilsueflingu koma til greina. „Ég vil taka Janus á orðinu. Ég vil sjá átak í þá veruna nákvæmlega eins og hann lýsti hér,“ segir Ásmundur Einar.

Janus segir að 50 milljarðar fari í rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á ári. „Þetta verða 81 milljarðar eftir 15 ár, ef við gerum ekkert og höldum þessari þróun áfram,“ segir Janus.“

Fyrir okkur sem árum saman höfum stundað sund og qi gong fyrir utan gönguferðir kemur ekkert af því sem að ofan segir á óvart nema hikið í orðum ráðherrans. Hafi hann notað þau orð að það „komi til greina“ að fara að ráðum Janusar endurspeglar það afstöðu opinbera kerfisins almennt. Innan þess er ótti við að skref í þá átt sem Janus og Óli Björn nefna rýri hlut opinberra aðila á einhvern hátt.

IMG_8923Qi gong æfingar á Klambratúni njóta mikilla vinsælda meðal eldri borgara.

Með rannsóknum sínum hefur dr. Janus Guðlaugsson sannað að aðferðir sem hann beitir skila árangri í betri heilsu og líðan þeirra sem æfingar hans stunda.

Harvard Medical School – Harvard læknaskólinn – gaf fyrir nokkru út leiðbeiningar um fimm æfingar fyrir þá sem eru hvorki íþróttamenn né ákafir líkamsræktarmenn heldur vilja stunda líkamsæfingar sér til heilsubótar eða til að passa betur í fötin sín.

Bent er á að sumar bestu líkamsæfingarnar krefjist þess hvorki að farið sé í líkamsræktarstöð né þjálfað undir maraþonhlaup. Með þessum æfingum megi bæta heilsuna á undraverðan hátt. Þær haldi þyngdinni í skefjum, bæti jafnvægið og hreyfigetuna, styrki beinin, verndi liðamótin og minnki blöðruvandamál auk þess að sporna gegn minnistapi.

Á vefsíðunni eru gefin ráð um æfingar og nefndar fimm sem taldar eru bestar til að styrkja líkamann og draga úr hættu á sjúkdómum. Í tveimur efstu sætum eru 1. sund, 2. tai chi – qi gong. Um kínversku æfingarnar segir:

„Æfingarnar hæfa öllum aldurshópum án tillits til þess hvernig fólk er á sig komið. „Þær eru sérstaklega góðar fyrir eldra fólk vegna þess að jafnvægi skiptir miklu til að vera vel á sig komin og okkur hættir til að missa jafnvægið þegar við eldumst,“ segir dr. Lee.“

Árum saman höfum við sem erum í Aflinum, félagi qi gong iðkenda, unnið að því af áhuga og í kyrrþey að kynna ágæti þessara æfinga.

Undanfarin sumur höfum við gert það á Klambratúni í samvinnu við heilsumiðstöðina Tvo heima með dálitlum stuðningi frá Reykjavíkurborg. Þegar mest var í sumar komu um 160 manns og gerðu æfingarnar í um 40 mínútur klukkan 11.00. Í Tveimur heimum er fólk sem hefur sótt menntun og reynslu til kínverskra meistara.

Reynsla mín er að talað er fyrir daufum eyrum þegar reynt er að vinna skilning „kerfisins“ á nauðsyn þess að gefa þessari starfsemi byr undir báða vængi. Það er ekki nóg að segja að eitthvað „komi til greina“ heldur ber að skilgreina kröfur og styðja þá einkaaðila sem geta fullnægt þeim í stað þess að halda að innan opinbera kerfisins sé að finna þá þekkingu og reynslu sem ein dugar til að ná árangri á þessu sviði.