Óskiljanlegt feigðarflan Pútins
Feigðarflan Pútins er óskiljanlegt frá upphafi. Einmitt þess vegna er ógjörningur að spá fyrir um skynsamleg lok umsáturs hans um Úkraínu.
Atburðarásin vegna umsáturs Rússa um Úkraínu er nú hröð. Í austurhluta landsins sviðsetja aðskilnaðarsinnar og rússneskir sérsveitarmenn atvik til nota sem átyllu til kalls á rússneska aðstoð. Net- og tölvuárásir eru gerðar á varnarmálaráðuneytið og banka í Úkraínu. Annars staðar er leitað pólitískra lausna.
Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, flutti sögulega ræðu á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 19. febrúar. Hann sagði að væru frásagnir vestrænna ríkisstjórna um aðgerðir og yfirvofandi stórárás Rússa réttar ætti nú þegar að grípa til refsiaðgerða. Ekki mætti skapa ástæðulausan ótta með slíkum fréttum.
Zelenskílj vék einnig að kjarnorkuvopnum. Með svonefndu Búdapest-samkomulagi frá 1994 afsöluðu Úkraínumenn sér kjarnorkuvopnum gegn tryggingu fyrir friðhelgi landamæra sinna. Forsetinn sagðist hafa falið utanríkisráðuneytinu að boða til leiðtogafundar ríkjanna (Úkraínu, Rússlands, Bandaríkjanna og Bretlands) sem stóðu að gerð samkomulagsins. Kæmi ekki til fundarins eða tækist ekki á fundinum að veita Úkraínumönnum öryggistryggingu mundi stjórn Úkraínu líta á samkomulagið og það sem ritað var undir 1994 úr gildi fallið.
Sunnudaginn 20. febrúar ræddi Emmanúel Macron Frakklandsforseti við forseta Rússlands og Úkraínu og að lokum samþykkti Joe Biden Bandaríkjaforseti að hitta Macron og Vladimir Pútin Rússlandsforseta á fundi í París, þó með fyrirvara um að Rússar sýndu í verki að innrás yrði ekki gerð í Úkraínu. Ráðgert er að utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Sergeij Lavrov hittist fimmtudaginn 24. febrúar til að undirbúa leiðtogafundinn.
Með öðrum orðum: Vikan hefst með Rússa gráa fyrir járnum við landamæri Úkraínu en jafnframt með von um að pólitísk lausn finnist og vopnum verði ekki beitt.
Pútin vill fá að sitja á sama stalli og Biden. Pútin þráir viðurkenninguna sem í því felst. Að hann gæfi nú fyrirmæli um innrás bryti í bága þessa þrá hans. Pútin tók öryggiskerfi Evrópu og Evrópuþjóðir í gíslingu með hótun um stríð. Spurningin er enn sú sama og áður: Er hótunin öflugri en leikurinn? Líklegt er að Pútin telji að svo sé og hann veðji því næst á að ná viðunandi niðurstöðu í viðræðum við Biden.
Hernaðarbrölt Pútins minnir nágrannaþjóðir Rússa á nauðsyn hernaðarlegrar festu gagnvart þeim og hve hættulegt er að eiga orkugjafa undir Rússum.
Pútin er í óbærilegri stöðu vegna eigin ákvarðana. Innrás í Úkraínu gengur þvert á allar yfirlýsingar hans um að hún vaki ekki fyrir honum, hann yrði marklaus og útskúfaður. Verði Pútin rétt hjálparhönd að vestan með samkomulagi yrði því fylgt eftir í nýja veruleikanum sem hann skapaði með brölti sínu. Ráðstafanir yrðu gerðar til að efla varnir gegn Rússlandi og dreifa orkugjöfum í Evrópu.
Feigðarflan Pútins er óskiljanlegt frá upphafi. Einmitt þess vegna er ógjörningur að spá fyrir um skynsamleg lok umsáturs hans um Úkraínu.