1.10.2018 10:59

Óskammfeilni tveggja stjórnarandstöðuþingmanna

Helga Vala gagnrýnir að erlendur lesendur séu ekki bólusettir gegn dr. Hannesi – Jón Steindór gagnrýnir Breta fyrir að óska eftir sérkjörum

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar pistil í Morgunblaðið í dag (1. október) og lýsir áhyggjum vegna þess að dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skrifaði skýrslu á ensku um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Hættulegt sé fyrir útlendinga að lesa hana af því að henni fylgi ekki bólusetning gegn dr. Hannesi. Hann sé í raun hættulegur vegna skoðana sinna.

Morgunblaðið ætti samkvæmt þessu að bólusetja lesendur gegn Helgu Völu. Hún fjallar um menn og málefni frá þrengsta sjónarhóli Samfylkingarinnar og er víðsfjarri fræðilegum kröfum sem gerðar eru til rita á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Helga Vala segir Ísland ekki „siðað ríki“ þar sem lesendur skýrslunnar séu ekki varaðir sérstaklega við fortíð og stöðu höfundarins. Helga Vala virðist ekki hafa lesið annað í ritverkinu en inngang þess, henni er nóg að vita hver höfundurinn er til að dæma verkið. Þetta er ótrúleg óskammfeilni.

Arrogance-liAnnar þingmaður stjórnarandstöðunnar, Jón Steindór Valdimarsson í Viðreisn, birtir óskammfeilna grein á vefsíðunni Kjarnanum sunnudaginn 30. september. Hann er eindreginn talsmaður aðildar Íslands að ESB og ræðir um það sem óhjákvæmileika að til hennar komi. Hann er reiður Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra fyrir að benda á að það standist ekki sem sagt hefur verið um að ástæðulaust sé að óttast ESB-aðild „því að það sé ekkert mál að fara út ef okkur líkar ekki við veruna“.

Jón Steindór hefur vafalaust notað röksemdina sem ráðherrann hafnar við boðun aðildarerindisins. Hann notaði örugglega þá röksemd að það yrði að leiða samningaviðræður við ESB til lykta, annars fengjum við ekki að vita um sérkjör okkar við aðild. Nú segir hann:

„Bretar virðast vilja njóta samvinnu Evrópusambandsins þar sem þeim þóknast en hafna því að takast á við þær skyldur sem samvinna innan Evrópusambandsins felur í sér. Hér virðist sem breska ríkisstjórnin vilji bæði eiga kökuna og éta. Eins og við vitum flest er það ómögulegt.“

Jón Steindór taldi Íslendinga geta náð því fram við ESB að „eiga kökuna og éta“ en hann segir Breta í raun fífl að láta sér detta slíkt í hug. Hvað ætli Jón Steindór haldi um dómgreind lesenda sinna?