Ósannfærandi leiðari Kolbrúnar
Að breyta þessu hneyksli í Namibíu í vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn af því að hann hafi „sérstakt dálæti á stórútgerðarmönnum“ er langsótt hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur.
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar leiðara í Fréttablaðið í dag (12. desember) „um þá miklu óánægju sem grasserar nú í þjóðfélaginu“. Vegna þess sem hún kallar Samherjamálið og snýst fréttir af aðild Samherja að mútugreiðslum í Namibíu.
Í leiðaranum bendir Kolbrún á að efnt hafi verið til tveggja mótmælafunda á Austurvelli eftir að WikiLeaks-skjölin um spillinguna í Namibíu birtist og aðild Samherja að henni. Fundirnir hafi ekki heppnast eins og til var ætlast en úr því megi bæta „ef meiri fjölbreytni ríkti í vali á ræðumönnum“.
Það er afneitun hjá Kolbrúnu að tala aðeins um
skort á fjölbreytni við val á ræðumönnum í stað þess að benda hreinlega á að
ræðumennirnir og skipulag fundanna hafi gengið fram af mörgum hvort sem þeir sóttu
fundina eða ekki.
Á fyrri fundinum stóð Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, með hnefann á lofti og öskraði á auðvaldið. Á síðari fundinum flutti rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson hatursræðu í garð Sjálfstæðisflokksins. Þótt ræðan yrði til þess að sælutilfinning hríslaðist um Hallgrím Helgason rithöfund að hans eigin sögn var öðrum nóg boðið eins og Jóni Halli Stefánssyni rithöfundi sem telur að Bragi Páll hafi unnið þeim málstað sínum tjón með orðum sínum.
Sé leiðari Kolbrúnar skrifaður til að réttlæta þessar uppákomur í þágu helsta fundarboðandans, Stjórnarskrárfélagsins, má segja að Bleik sé brugðið. Það er nefnilega hluti vandamáls fundarboðenda að þeir telja sér og öðrum trú um að samkomur af þessu tagi stuðli að því að niðurstaða þeim í hag fáist í stjórnarskrármálinu. Sýnir það vel í hvílíkar ógöngur félaginu hefur tekist að leiða stjórnarskrármálið.
Vandinn við lélega fundarsókn á Austurvelli núna er ekki að ræðumenn komi „of margir úr sömu pólitísku áttum“ heldur hvað ræðumennirnir segja. Þeir grípa til upphrópana og illmælgi af því að setjist þeir niður og ætli að semja ræðu um það sem sagt er tilefni fundanna, spillingarmál í Namibíu með aðild Samherja, sjá þeir að þá skortir kjöt á beinið. Þeir fara þá í innantóma árásargírinn.
Sé farið inn á vefsíðu dagblaðsins The Namibian er mest áberandi fréttin þar núna að Hage Geingob, forseti Namibíu, hafi sagt ráðherrum föstudaginn 6. desember að gagnrýndu þeir rannsóknina á því sem blaðið kallar the Fishrot scandal og treystu ekki hvernig stjórnvöld tækju á málinu skyldu þeir bara segja af sér.
Forsetinn er sagður reiður yfir því að þrír ráðherrar í ríkisstjórninni láti eins og þeir séu „hreinni“ en Bernhard Esau sjávarútvegsráðherra og Sacky Shanghala dómsmálaráðherra sem sögðu af sér vegna the Fishrot. Segir blaðið að svo virðist sem Hage Geingob vilji ekki viðurkenna hve djúpt flokkur hans og stjórn sé sokkin í spillingarfenið.
Augljóst er að vegna þessa hneykslismáls hriktir í innviðum stjórnkerfis Namibíu. Þótt ráðherrar segi af sér og séu til rannsóknar er greinilega ekki allt sem sýnist.
Að breyta þessu hneyksli í Namibíu í vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn af því að hann hafi „sérstakt dálæti á stórútgerðarmönnum“ er langsótt hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Hún hefur oft skrifað betri leiðara en þennan enda er málstaðurinn ósannfærandi.