24.8.2020 9:53

Öryggisnetið gegn veirunni

Deilt er um hvernig unnt er að hefta útbreiðslu heimssóttarinnar sem breiðist út í bylgjum og verður að líkindum ekki unnt að hefta fyrr en bóluefni finnst.

Samfélagslegt öryggisnet er lykilhugtak þegar rætt er um velferðarsamfélögin á Norðurlöndunum. Eftir bankahrunið var haft eftir hagfræðiprófessornum og nóbelsverðlaunahafanum Paul Krugman að Íslendingar hefðu leyft bönkunum að fara á hausinn og eflt samfélagslegt öryggisnet sitt. Á meðan allir lögðu sig fram um að róa alþjóðlega fjárfesta hefðu Íslendingar sett á gjaldeyrishöft til að leyfa hagkerfinu að aðlagast. Þarna hefði einnig mátt minnast á neyðarlögin frá október 2008 sem reyndust í raun þéttriðnasta öryggisnetið.

Þótt samfélagslegt öryggisnet sé sameiginlegur þáttur í norrænu þjóðfélagsgerðinni eru aðferðirnar við að virkja það þegar á reynir ólíkar eins og sannast hefur nú í baráttunni við COVID-19-heimsfaraldurinn. Þjóðirnar hafa farið ólíkar leiðir og verður fróðlegt að sjá að lokum hver þeirra verður talin hafa reynst best.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag (24. ágúst) og heldur uppi vörnum fyrir íslensku leiðinni sem tekur að sjálfsögðu mið af að við búum á eyju og höfum því betri tæki en aðrir til að verjast smiti frá öðrum löndum.

Deilt er um hvernig unnt er að hefta útbreiðslu heimssóttarinnar sem breiðist út í bylgjum og verður að líkindum ekki unnt að hefta fyrr en bóluefni finnst. Um 160 rannsóknarteymi um heim allan leita nú að bóluefni og sex eða sjö eru komin á góðan rekspöl, tíminn einn leiðir viðunandi árangur í ljós.

Covid_19Undanfarna mánuði hefur ríkisstjórn Íslands stuðst við ráð vísindamanna við mótun stefnu sinnar og töku ákvarðana gegn veirunni. Þar hefur verið haft að leiðarljósi „að verja líf og heilsu fólks og tryggja að samfélagið geti gengið áfram með sem eðlilegustum hætti,“ eins og forsætisráðherra segir í grein sinni. Ráðherrann segir einnig að nýjasta stórákvörðunin sem kynnt var 14. ágúst um hertar „aðgerðir á landamærum með því að taka þar upp tvöfalda skimun með 4 til 5 daga sóttkví á milli sem valkosti við 14 daga sóttkví,“ hafi „vakið töluverða umræðu, bæði um hagræna þætti og borgaraleg réttindi“.

Katrín viðurkennir mikilvægi umræðunnar um borgaraleg réttindi og segir kannski furðu að hún hafi ekki vaknað löngu fyrr þótt „óvíða í Evrópu hafi frelsi manna verið takmarkað minna en hér á landi seinustu sex mánuði“. Hér hafi hins vegar „tugþúsundir eldri borgara og þeir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum ... mátt búa við verulega félagslega einangrun“.

Öryggisnetið með sóttvarnaráðstöfunum hefur verið þéttast í kringum þetta fólk. Nú þykir mörgum nóg um þegar ákveðinn er „fimm daga ferðatími yfir landamærin“ eins og forsætisráðherra orðar það. Landinu er ekki lokað en þröskuldurinn hækkaður.

Skerðing á borgaralegum réttinum er staðreynd vegna samfélagslega öryggisnetsins. Er unnt að ná sáttum um mörk frelsis til að smitast? Er pestin núna orðin svo væg að ekki er áhyggjuefni þótt margir smitist? Upphaflega var tilgangurinn að verja heilbrigðiskerfið. Nú hefur það tekist og þá miða allar aðgerðir „að því að tryggja hag almennings á Íslandi sem allra best,“ segir forsætisráðherra í greinarlok.