29.12.2022 10:00

Öryggismál í nýju ljósi

Umræður um öryggismál taka á sig einkennilegar myndir hér á landi. Sú skoðun lifir lengi að hér gildi allt önnur lögmál í þeim efnum en annars staðar.

Umræður um öryggismál taka á sig einkennilegar myndir hér á landi. Sú skoðun lifir lengi að hér gildi allt önnur lögmál í þeim efnum en annars staðar. Ástæðuna fyrir þessari grunnhyggni er meðal annars að finna í fálæti eða fávisku á innlendum fjölmiðlum svo að ekki sé minnst á þögnina sem ríkir um þau á stjórnmálavettvangi.

Innan íslenska háskólasamfélagsins hefur ekki verið stunduð nein sjálfstæð rannsóknarstarfsemi á öryggis- og varnarmálum. Hér er skortur á rannsóknarstofnun á þessu sviði á borð við þær sem gefa álit um þróun mála og rýna í framtíðina í öðrum löndum.

Þegar litið er til skipulagðrar glæpastarfsemi og hættuna af henni er leitað til afbrotafræðinga sem eru sérfróðir um tölfræði afbrota og það sem hún segir um strauma í samfélaginu en stunda ekki rannsóknir á því hvaða aðferðir duga best til forvarna.

1226819mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við blasir að skipulega er unnið að því að hvetja fólk frá öðrum löndum til að koma hingað sem hælisleitendur. Á alþingi er með málþófi lagst gegn því að t.d. félagsleg aðstoð við hælisleitendur sé innan sambærilegs ramma og annars staðar. Landamæravarsla er ekki löguð að gjörbreyttum aðstæðum. Til að grafa undan þeim sem framfylgja lögum á þessu sviði fagnar leikkona því að leika forstjóra Útlendingastofnunar sem einskonar norn í jólaþáttum fyrir börn í ríkisútvarpinu.

Ríkislögreglustjóri sendi frá sér tilkynningu í gær, 28. desember, um að viðbúnaðarstig lögreglu hefði verið hækkað í kjölfar úrskurðar Landsréttar frá 13. desember um afléttingu gæsluvarðhalds yfir ákærðu vegna ætlaðs skipulags á hryðjuverkum. Viðbúnaðarstigin eru fimm; frá A til E. Viðbúnaðurinn er nú í B-flokki og hættustig vegna hryðjuverka er á þriðja stigi af fimm. Það var áður á fyrsta stigi á fjórum en fimmta stiginu var nýverið bætt við til að það væri í samræmi við það kerfi sem notast er við á Norðurlöndum.

Þegar þessi tilkynning er birt kemur lögfræðingur annars ákærða fram á fjölmiðlavöllinn og sakar lögreglu um „sýndarmennsku“. Niðurlægjandi ummæli hans um lögreglu fá jafnmikið vægi ef ekki meira í fjölmiðlum og rökstuðningur lögreglu fyrir ákvörðunum sínum sem meðal annars eru reistar á samráði við Evrópulögregluna, Europol.

Tillögur forsætisráðherra um útfærslu á þjóðaröryggisstefnunni hafa sætt gagnrýni fyrir að þar sé ekki vikið að herfræðilegri hlið mála og á skorti að varnir landsins taki mið af vilja og þörfum Íslendinga. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þetta rangt í samtali við ríkisútvarpið 28. desember:

„Það hefur ekki verið vilji til þess að hafa hér her á Íslandi. Það væri þá eitthvað alveg nýtt ef fólk vildi taka slíkan pól í hæðina. Ég tel ekki að það sé stuðningur við þær hugmyndir á Alþingi.“

Þarna hlýtur ráðherrann að eiga við íslenskan her, að ekki sé stuðningur við hann á alþingi. Hefur þörf fyrir innlendan her verið könnuð og rædd af hálfu þjóðaröryggisráðs? Á alþingi er stuðningur við erlendan her í landinu. Liggi eitthvert opinbert mat að baki yfirlýsingu um innlendan her ætti að birta það.