Öryggi í boði annarra
Á þessum fundum segist Kristrún fljótt hafa orðið þess vör að fólk vildi öryggi en upplifði víða öryggisleysi.
Í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra nú í upphafi þings nefndi Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, þrisvar sinnum að hún vildi ekki „heljarstökk“ heldur örugg skref, öryggi og festu.
Þeim sem fylgjast sæmilega með íslenskum stjórnmálaumræðum, utan flokksbanda Samfylkingarinnar, kom þessi áhersla á stöðugleika í stað heljarstökka á óvart. Hver vildi þau á dagskrá? Það var þvert á móti bent á að Kristrún hefði horfið af bjargbrúninni með því að falla frá áformum um aðild að ESB og kröfum um „nýja stjórnarskráin“.
Bæði þessi mál voru kynnt til sögunnar af forvera Kristrúnar á formannsstólnum, Jóhönnu Sigurðardóttur, eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Gerði Jóhanna það til að árétta skilin milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem hún lagði í einelti eins og síðar sannaðist best með landsdómsákærunni gegn Geir H. Haarde. Hann var forsætisráðherra með Jóhönnu í stjórninni sem sat frá sumri 2007 til 1. febrúar 2009.
Með því að hafna heljarstökkum var Kristrún að tala til fólks innan síns eigin flokks. Hún taldi sig hafa stöðu til þess vegna góðs gengis í skoðanakönnunum. Kristrún var einnig undir áhrifum ferðalags um landið þar sem hún hélt fjörutíu opna fundi „um heilbrigðis- og öldrunarmál í bakaríum, menningarsölum, húsakynnum verkalýðsfélaga og félagsheimilum – og annað eins af fundum á vinnustöðum, með fólkinu af gólfinu og öðrum sérfræðingum um heilbrigðiskerfið“ eins og hún segir í grein í Morgunblaðinu í dag (6. október).
Í greininni útfærir Kristrún stefnu sem hún kynnti í vikunni undir fyrirsögninni: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Hún segir að stefnan hafi að geyma „fimm þjóðarmarkmið til tveggja kjörtímabila og örugg skref í rétta átt í þessum mikilvægu málaflokkum“.
Í stefnunni eru nokkur meginmarkmið í heilbrigðismálum færð í búning sem er mótaður „á klassískum gildum jafnaðarmennsku“ en af pólitískri forystu þar sem „tilfinningin, innblásturinn og forgangsröðunin [er] sótt milliliðalaust til fólksins í landinu“. Það gefi henni „styrk og fullvissu“.
Á þessum fundum segist Kristrún fljótt hafa orðið þess vör að fólk vildi öryggi en upplifði víða öryggisleysi og þar réði skortur á föstum heimilislækni mestu. Er fyrsta markmið Samfylkingarinnar að fjölga heimilislæknum og tryggja heimilisteymi.
Í Lífsgæðasetrinu St. Jó í Hafnarfirði sameina margir krafta sína.
Þetta er mikilvægt markmið sem oft hefur verið kynnt til sögunnar. Framkvæmdin mótast þó til dæmis mjög af því að skilum milli félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga annars vegar og heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins hins vegar. Að samhæfa þessa þjónustu er verkefni sem stjórnmálamenn hafa ekki getað leyst á viðunandi hátt þótt ýmis skref hafi verið stigin til þess meðal annars með Lífsgæðasetri St. Jó í gamla St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.
Samfylkingin hefur undirtökin í meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur, hún ætti að stíga markvert skref til aukins öryggis fyrir eldri borgarbúa sem auðveldaði þeim að dveljast á eigin heimilum. Það yrði til að auka trú manna á að ákvarðanir fylgdu orðum flokksformannsins. Hún væri ekki í sömu sporum og borgarstjórinn sem keppist við að lofa því sem hann vill að aðrir framkvæmi.