15.1.2023 11:42

Örlög konungdæma

Ulla Terkelsen segir að um sama leyti og Konstantín, fyrrverandi Grikkjakonungur, falli frá birti Harry, hertogi af Sussex, minningabók sína Varaliðann

Danski blaðamaðurinn og sjónvarpsfréttamaðurinn Ulla Terkelsen (f. 1944) rifjar upp í tilefni af dauða landlausa konungsins Konstantíns (1940-2023) hvernig var talað um konungdæmið á sjöunda áratugnum þegar hún var lærði blaðamennsku á sósíaldemókratíska blaðinu Demokraten í Árósum. Blaðið sem gagnrýndi „kerfið“ harðlega er fyrir löngu dáið.

Ulla Terkelsen segir að Holger Eriksen stjórnmálaritstjóri blaðsins hafi jafnframt setið á þingi fyrir sósíaldemókrata. Hann hafi eins og meirihluti starfsmanna blaðsins verið á móti aðild Dana að NATO, að sameiginlega Evrópumarkaðnum, eins og ESB hét þá, og konungsvaldinu. Honum hafi verið svo misboðið þegar konungur var við setningu þingsins að hann yfirgaf þingsalinn í mótmælaskyni. Andstaðan við NATO og sameiginlega markaðinn hafi brotið gegn stefnu flokks sósíaldemókrata, Jafnaðarmannaflokksins. Á Demokraten hafi ritstjórnin talið andstöðuna til marks um að hún léti þröngsýna flokksforystu ekki kúga sig.

Samhljómur var hins vegar milli blaðs og flokks um konungdæmið.

Þegar danska prinsessan Anne-Marie og Konstantín Grikkjakonungur giftu sig 1964 hæddist Demokraten mjög að ráðahagnum og velti sér upp úr óvild í garð konungdæmisins eins og danska blaðið Politiken gerði einnig á þeim árum. Spjótunum var einkum beint að Frederikke Grikkjadrottningu, móður Konstantíns, sem var fædd í Þýskalandi, var henni lýst sem pólitískri eiturpöddu – sem ritstjórnin taldi sannað þegar fréttir bárust um að hún hefði dansað við einn úr stjórn herforingjana sem rændi völdum í Grikklandi.

Demokraten fagnaði því innilega þegar stjórn sósíaldemókrata bannaði mági Margrétar krónprinsessu og systur hennar, Konstantín og Anne-Marie, að taka þátt í brúðkaupi Margrétar 1967 – þau væru konungshjón með hryllilega herforingjastjórn í Grikklandi. Síðar sama ár neyddust grísku konungshjónin að flýja land. Eftir að lýðræði komst aftur á voru þau, árið 1973, niðurlægð í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem konungdæminu var hafnað og Konstantín varð landlaus án allra titla.

HtindexUlla Terkelsen segir að um sama leyti og Konstantín falli frá birti Harry, hertogi af Sussex, minningabók sína Varaliðann og hafi aldrei selst jafnmörg eintök af bók í Sameinaða konungdæminu (Bretlandi) síðan bækurnar um Harry Potter birtust. Breski prinsinn Harry minni einnig á að konungdæmi geti verið veikburða.

Harry vilji þó ekki leggja breska konungdæmið niður heldur standa fyrir öflugri hreingeriningu innan þess eins og Hamlet í samnefndu leikriti Shakespeares. Ulla Terkelsen minnir á að þegar menn tali um að einhver atburðarás taki á sig mynd „lokaþáttar Hamlets“ þýði það að allir falli að lokum, allt hrynji til grunna. Hún er þó ekki svo svartsýn um örlög breska konungdæmisins þrátt fyrir atlögu Harrys – hermannsins sem skjóti með vélbyssu úr brynvarinni þyrlu.

Undir lok greinarinnar minnir hún á að nú sé blaðið Demokraten horfið og öllum gleymt og einnig andstaðan við konungdæmið – að minnsta kosti í Danmörku.

Grein sinni lýkur Ulla Terkelsen í Jyllands Posten á þeim orðum að nú sé það konungborna fólkið sjálft, eins og kerfisgagnrýnandinn Harry, sem haldi lífi í umræðunum með eða móti konungdæminu.