Örlög Afgana í brennidepil
Útlendingamálin eru hvarvetna viðkvæmt úrlausnarefni vestrænna stjórnmálamanna. Atburðirnir í Afganistan draga enn á ný athygli að þeim.
Athygli beinist að þeim þúsundum manna sem reyna að komast á brott frá Afganistan eftir valdatöku Talibana. Óljóst er hvernig á móti þeim verður tekið. Allt getur gerst og sumt á skömmum tíma eins og sannast hefur í Kabúl.
Bretar og Kanadamenn segjast hvor um sig ætla að taka á móti 20.000 flóttamönnum frá Afganistan. Ljóst er hins vegar að innan ESB halda ríki að sér höndum. Í Þýskalandi vill enginn að atburðirnir frá árinu 2015 endurtaki sig þegar Angela Merkel opnaði landið og meira en ein milljón manna streymdi þangað. Kosið verður í Þýskalandi 26. september og standa flokkarnir á flóttamannabremsunni. Emmanuel Macron Frakklandsforseti heldur að sér höndum. Hann og aðrir forystumenn ESB vilja frekar veita nágrannaríkjum Afganistans fjárhagslegan stuðning til að taka á móti afgönsku flóttafólki og heimila því dvöl frekar en að bylgja þess skelli á evrópskum landamærum. Í Danmörku heldur flóttamannanefndin að sér höndum og tekur ekki mál Afgana á dagskrá. Loks er bent á að ef til vill verði enginn fjöldaflótti frá Afganistan vegna strangrar landamæravörslu Talibana.
Vegna ástandsins í Afganistan hafa milljónir manna yfirgefið heimili sín í leit að öryggi annars staðar, hve margir fara út úr landinu er óljóst.
Hér eru félagasamtök á borð við No Borders sem vilja enga vörslu á landamærum. Á þeirra vegum er öðru hverju efnt til mótmæla í þágu einstakra hælisleitenda til að vekja athygli á málstað samtakanna.
Andstæðingar þess að umsóknir hælisleitenda fari lögboðnar leiðir og fái afgreiðslu í samræmi við lög láta minna til sín heyra á COVID-tímum en endranær. Krafan um opin landamæri fellur ekki að tíðarandanum.
Fréttir berast af fundum flóttamannaráðs hér á landi og um ráðagerðir um að taka á móti Afgönum. Óljóst er þó hvað felst í orðum íslenskra ráðamanna um þetta efni. Hvort íslenskir stjórnmálamenn eða kjósendur vilji gera þetta að kosningamáli kemur í ljós.
Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, nýtir sér vandræði farand- og flóttafólks til að ögra nágrannaríkjum sínum í vestri. Hann heimilar flutning á nauðstöddu fólki frá flugvöllum við Bagdad og Istanbúl til Minsk og lætur lögreglu sína síðan aðstoða það við að komast inn í ESB-löndin Litháen, Lettland og Pólland til að hefna refsiaðgerða ESB í sinn garð.
Litháar birtu myndband sem sýnir 12 vopnaða hvítrússneska lögreglumenn ýta um 35 farandmönnum yfir landamærin inn í Litháen.
Fólkið sem rekið er yfir landamærin frá Hvíta-Rússlandi er frá Sýrlandi, Afganistan og Vestur-Afríku. Í ár hafa 4.026 einstaklingar komið ólöglega á þennan hátt til Litháens en þeir voru 74 í fyrra. Nú í ágústmánuði einum hafa 2.100 manns reynt að komast á þennan hátt til Póllands, allt árið 2020 var fjöldinn 122. Litháar vinna nú að því að leggja gaddavír á landamærunum við Hvíta-Rússland og um 1.000 pólskir hermenn hafa verið sendir til landamæravörslu.
Útlendingamálin eru hvarvetna viðkvæmt úrlausnarefni vestrænna stjórnmálamanna. Atburðirnir í Afganistan draga enn á ný athygli að þeim. Mörg ríki telja sér skylt að veita þeim skjól sem voru nánir samstarfsmenn úr hópi Afgana og sæta ofsóknum vegna þess.