29.12.2024 10:35

Örlagadagar í Georgíu

Áhugi meirihluta íbúa Georgíu á að rækta þessi tengsl við Evrópu og NATO er ástæða þess að þar ríkir pólitísk háspenna um þessar mundir.

Örlagarík barátta er háð í Georgíu um þessar mundir. Landið er í Kákasusfjöllum, við austurströnd Svartahafs. Georgía á landamæri að Rússlandi í norðri, Tyrklandi og Armeníu í suðri og Aserbaídsjan í austri. Georgía er í Austur-Evrópu og Vestur-Asíu en hefur flestöll stjórnmálaleg og menningarleg tengsl sín við Evrópu.

Áhugi meirihluta íbúa Georgíu á að rækta þessi tengsl við Evrópu og NATO er ástæða þess að þar ríkir pólitísk háspenna um þessar mundir. Valdaklíka í kringum auðmann með sambönd inn í Kreml og við Vladímír Pútin hefur sölsað undir sig öll völd með svikum í þingkosningum í október. Í krafti þess ólögmæta meirihluta hefur aðildarviðræðum við ESB verið slegið á frest og kjörinn nýr forseti, Mikheil Kavelashvili, sem á að taka við völdum í dag (29. desember).

20240305-tbilisi-official-welcome-3Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við heiðursvörð í Tblisi, höfuðbörg Georgíu í mars 2024 (mynd: forseti.is).

Salome Zourabichvili, fráfarandi forseti, er andstæðingur valdaklíkunnar og hlynnt Evróputengslum. Hún segir kjör eftirmanns síns ólögmætt. Ólöglegur meirihluti þingmanna geti ekki veitt nýjum forseta lögmætt umboð.

Zourabichvili segist ekki ætla að hverfa úr forsetaembættinu en Irakli Kobakhidze forsætisráðherra hefur hótað henni með handtöku og fangelsun víki hún ekki fyrir nýjum forseta.

ESB-þingið hefur lýst þingkosningarnar í Georgíu 26. október ólögmætar og hvatt til að kosið verði aftur. ESB hefur hins vegar ekki getað beitt Draum Georgíu, valdaflokkinn, refsiaðgerðum þar sem fulltrúar Ungverjalands og Slóvakíu leggjast gegn því.

Bandaríkjastjórn lagði stjórnarandstöðunni í Georgíu lið föstudaginn 26. desember þegar gripið var til refsiaðgerða gegn auðmanninum og Rússavininum, Bidzina Ivanishvili, formanni Draums Georgíu, fyrir að vega að „lýðræðislegri framtíð og samstarfi Georgíu við ríki í Evrópu og við Atlantshaf til að þóknast Rússneska sambandsríkinu“.

Árið 2008 sendi Vladimír Pútin her inn í Georgíu og lagði síðan undir sig tvö landamærahéruð landsins. Andúð meirihluta almennings á frekari ítökum Rússa er augljós.

Guðni Th. Jóhannesson, þáv. forseti Íslands, fór með fríðu föruneyti í opinbera heimsókn til Georgíu í mars. Að henni lokinni sagði Guðni Th. meðal annars á Facebook-síðu sinni 9. mars 2024 að hann hefði flutt lykilerindi á alþjóðlegri ráðstefnu um öryggis- og varnarmál. Georgía væri umsóknarríki um aðild að Atlantshafsbandalaginu og styddu íslensk stjórnvöld þá vegferð. Um 20% landsins væru hersetin af Rússum. Við stjórnsýslumörk Suður-Ossetíu þar sem Rússar hafa haft hernámslið síðan árið 2008 fékk Guðni Th. kynningu á stöðu mannúðarmála.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fór um miðjan maí til Georgíu ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens til stuðnings Salome Zourabichvili forseta og lýðræðisöflum í landinu.

Nú reynir á nýjan forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, og nýja ríkisstjórn Íslands til stuðnings frelsisöflunum í Georgíu.