24.3.2019 10:14

Orkupakki á íslenskum forsendum

Þeir sem fylgst hafa með umræðum um málið sjá að ráðuneyti og ríkisstjórn hafa tekið á öllum álitaefnum sem hreyft hefur verið gegn innleiðingu orkupakkans hér á landi.

Umræður um þriðja orkupakkann sem pólitískt hitamál, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, hafa staðið í eitt ár. Í mars 2018 var röngum upplýsingum um efni málsins miðlað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Forysta flokksins og utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra tóku málið föstum tökum og föstudaginn 22. mars, eftir fundi í þingflokkum sínum samþykkti ríkisstjórnin að leggja málið fyrir alþingi. Í tilkynningu að loknum fundi ríkisstjórnarinnar segir:

  • Ríkisstjórnin hefur samþykkt að senda til Alþingis þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans.
  • Þær reglur sem eiga við um flutning raforku yfir landamæri eru innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs. Þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.
  • Allir fræðimenn sem að málinu hafa komið eru sammála um að sú leið sem lögð er til við innleiðingu sé í fullu samræmi við stjórnarskrá.
  • Sameiginlegur skilningur íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB á gildi þriðja orkupakkans er að stór hluti ákvæða hans gilda ekki eða hafi neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar á innri raforkumarkað ESB.
  • Ennfremur er þar áréttað að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.
  • Um er að ræða orkupakka á íslenskum forsendum. Hann er tekinn upp í íslenskan rétt á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt við raforkumarkað ESB.

Debate3-1050x616Þeir sem fylgst hafa með umræðum um málið sjá að ráðuneyti og ríkisstjórn hafa tekið á öllum álitaefnum sem hreyft hefur verið gegn innleiðingu orkupakkans hér á landi. Í öllum tilvikum er niðurstaðan sú að hvergi sé um framsal fullveldis að ræða hvorki stjórnskipulega né varðandi ráð yfir orkulindunum eða sölu raforku um streng til annarra landa.

Að tekið hafi verið tillit til gagnrýni á innleiðingu á pakkanum og henni svarað með ítarlegri athugun er nú snúið á þann veg að þeir hafi haft rangt fyrir sér sem sögðu frá upphafi að gagnrýnin væri marklaus. Þessi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir haldleysið í andstöðunni við það sem um er að ræða og áhrifin hér á landi.

Þá er ótrúlegt að þeir sem vilja láta taka mark á sér hangi enn í því sem Jón Baldvin Hannibalsson sagði í sjónvarpi um að hann hefði komið í veg fyrir að hér yrðu innleidd EES-ákvæði um skipaskurði, vatnaleiðir og járnbrautir. Allt er þetta ímyndun utanríkisráðherrans fyrrverandi. Ákvæði sem þessi eru í íslenskum lögum eins og svo margt annað í lögbókinni vegna alþjóðasamstarfs eða annars án þess að á það reyni vegna þjóðfélagshátta. Hvorki á alþjóðavettvangi né annars staðar lifa menn á rúsínum úr tebollunni.