Orkukreddur til vandræða
Til að atvinnu- og efnahagslífið þróist hér á skipulegan og fyrirsjáanlegan hátt verður að móta þjóðinni orkustefnu sem nýtur verndar gegn öfgafullum andstöðuhópum.
Hér var í gær vakið máls á því hve Frakkar stæðu miklu betur að vígi í raforkumálum en Þjóðverjar sem hefðu ákveðið að hverfa frá því að nota kjarnorku til raforkuframleiðslu.
Nokkrar umræður um þetta á Facebook og meðal þeirra sem tóku þar til máls var Kristinn Pétursson, fyrrverandi alþingismaður frá Bakkafirði, sem sagði:
„Á Íslandi náðist ekki að fylla Þórisvatn í sumar en Þórisvatn er eitt af vatnsforðabúrum fyrir virkjanir Landsvirkjunar neðan Þórisvatns. Í dag framleiða svo öll álver landsins á hámarks afköstum, stærsta loðnuvertíð í mörg ár er fram undan sem nota mun meiri raforku en undanfarin ár, - ferðamannaiðnaðurinn og atvinnulífið er að taka við sér aftur eftir Covid.... Því miður virðast vaxandi líkur á raforkuskorti í vetur - í boði Landverndar & Co. Síðast í gær var talskona Landverndar enn einu sinni að fara með rangt mál og fullyrða að það „væri næg raforka“... veit hugsanlega ekki betur - og veit hugsanlega ekki heldur hvað það tekur mörg ár að byggja vatnsaflsvirkjun...“
Frá Þórisvatni (mynd visir.is).
Þegar rætt er um nýjan stjórnarsáttmála flokkanna þriggja sem standa að ríkisstjórninni staldra menn jafnan við ágreining um orkuframleiðslu og virkjanir.
Í ljósi allra vandræðafréttanna frá útlöndum er óskiljanlegt ef þingmenn og fylgismenn Vinstri grænna (VG) láti sérvisku Landverndar ráða för sinni við ákvarðanir um nýtingu á endurnýjanlegri orku.
Róttækur hópur landverndarsinna skipar vissulega nauðsynlegan sess í umræðuflóru landsins en að hann eigi síðasta orðið innan eins stjórnarflokkanna í mikilvægum málum lofar ekki góðu og leiðir til vandræða, ekki aðeins fyrir viðkomandi flokk heldur þjóðarbúið allt.
Til að atvinnu- og efnahagslífið þróist hér á skipulegan og fyrirsjáanlegan hátt verður að móta þjóðinni orkustefnu sem nýtur verndar gegn öfgafullum andstöðuhópum sem í raun misnota leiðir til kvartana og málshöfðana í þeim tilgangi einum að tefja og fæla frumkvöðla frá að láta að sér kveða.
Á sínum tíma var talað um svonefndar rammaáætlanir sem tæki til að sætta ólík sjónarmið í virkjunarmálum. Það ferli hefur snúist upp í andhverfu sína sé það rétt sem sagt var í blaðagrein fyrir kosningar að umhverfis- og auðlindaráðherra, varaformaður VG, hefði hindrað framgang rammaáætlunar IV.
Kreddur skapa oft mikinn vanda geti fylgismenn þeirra beitt opinberu valdi til að framkvæma þær. Þetta blasir við Reykvíkingum í húsnæðisskorti og umferðateppum í boði Dags B. Eggertssonar og stuðningsmanna hans í borgarstjórn Reykjavíkur.
Við þurfum ekki sambærilegt kredduástand í orkumálum.