Orkan eflir háskólana
Hér stefnir í orkuþrot vegna innbyggðra tafa- og hindrana. Á sama tíma minnkar allur áhugi frumkvöðla á sviði iðnaðar, hugvits og þekkingar.
Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins, segir að Norðmenn eigi ekki að loka fyrir sölu á jarðgasi og olíu. Skynsamlegt sé að láta eftirspurnina ráða, hún minnki jafnt og þétt auk þess sem gas- og olíulindir við Noreg minnki. Samhliða þessu eigi Norðmenn að grípa til gagnráðstafana til kolefnisjöfnunar.
Hér er fylgt þeirri stefnu að ekkert skuli hugað að gasi og olíu á íslenska landgrunninu. Ekkert bólar á skýrri framtíðarstefnu um virkjun vatns og jarðgufu auk þess sem óvissa ríkir um vindorkuver.
Í setningarávarpi á iðnþingi í gær (9. mars) sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI), að ekki væri nóg að setja sér markmið um orkuskipti og loftslagsmál, það þyrfti líka að standa við þau. Hann benti jafnframt á að raforka á Íslandi væri nú uppseld og aflgeta kerfisins komin að þolmörkum. Eftirspurnin eftir raforku hefði þó sennilega aldrei verið meiri og mörgum álitlegum verkefnum hefði á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts, svo að vitnað sé í frásögn Morgunblaðsins í dag (10. mars).
Formaðurinn talaði sem sagt í sama dúr og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi hennar á dögunum. Ísland er komið að þolmörkum við framleiðslu á endurnýjanlegri orku og til lengri tíma litið er ekkert nýtt á döfinni.
Nýjasta umræðuefnið til að tefja ákvarðanir um framkvæmdir, sem þó hafa komist í gegnum nálaraugað, er að virkjana-sveitarfélög fái ekkert fyrir sinn snúð. Það kann að sjálfsögðu að auðvelda og flýta fyrir samþykki við virkjunum eða raflínum að greitt sé aðgangsgjald til viðkomandi sveitarfélags. Opnar það nýjar leiðir og hvetur sveitarfélög til bjóða góða virkjunarkosti?
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, talar á iðnþingi (mynd:mbl.is/Kristinn Magnússon).
Hitt málið sem setti svip á iðnþingið samkvæmt frétt Morgunblaðsins var ræða Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Segir blaðamaður að „þögn hafi slegið“ á þingheim þegar hún lýsti hve mikils átaks væri þörf til að lyfta íslenskum háskólum á erlendum samanburðarlistum. Svo virðist sem dregið hafi úr öllum opinberum hvatakerfum til skólanna með því meðal annars að ýta á undan sér árum saman að endurskoða og endurnýja reiknilíkanið sem innleitt var fyrir um það bil aldarfjórðungi.
Ráðherrann vék sérstaklega að bágborinni stöðu drengja í íslenska skólakerfinu. Væri hlutfall drengja sem lykju framhaldsskólanámi og færu í háskóla sambærilegt meðaltali OECD-ríkjanna mætti vænta 7.500 sérfræðinga í iðnaði og þekkingargeiranum á næstu árum.
Íslenskt menntakerfi yrði að auka eigin gæði og tengsl við atvinnulíf. Vinna væri þegar hafin með nýju reiknilíkani og öðrum þáttum sem fælust í því að gera háskólana samkeppnishæfa við erlenda háskóla.
Erna Solberg vill ekki að Norðmenn afsali sér forskotinu í orkusölu heldur nýti sér það til að styrkja það sem er varanlegra. Hér stefnir í orkuþrot vegna innbyggðra tafa- og hindrana. Á sama tíma minnkar allur áhugi frumkvöðla á sviði iðnaðar, hugvits og þekkingar. Háskólar breytast í embættismannaskóla, hverfa til fortíðar. Vítahringinn verður að rjúfa.