Óreiða í boði Samfylkingar
Samfylkingarfólkið þrífst einmitt best með Pírötum í slíkri óreiðu og ýtir því undir hana hvenær sem tækifæri gefast og þá jafnan með þeim aðferðum að segjast vilja sporna gegn óreiðunni.
Í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi þriðjudagsins 19. mars ræddu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, um aðdraganda og afleiðingar þess að Landsbankinn samdi við Kviku banka um kaup á TM tryggingum þvert á eigendastefnu bankans og án formlegs samráðs hans við Bankasýslu ríkisins (BR) sem fer með 98,2% hlut í Landsbankanum hf. fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra.
Höfuðsröðvar Landsbankans (mynd: vefsíða Landsbankans).
Kristrún hafði ekkert efnislega til málsins að leggja heldur hélt sig við það sem hún kallaði ákvarðanatökuferlið. Þórdís Kolbrún fór yfir efni málsins og taldi að frekar ætti að verja tæplega 30 milljörðum króna sem Landsbankinn vill greiða fyrir TM til samfélagslegra þátta við þær aðstæður sem nú ríkja vegna skuldbindinga ríkissjóðs, eiganda bankans.
Kristrún vildi ekki ræða þetta meginsjónarmið heldur reri á gamalkunn og grugguð mið Samfylkingarinnar um að upplýsingar skorti. Fór Kristrún þar eftir línu sem samherji hennar í þingflokknum, Jóhann Páll Jóhannsson, hafði lagt um að það mætti ekki ríkja nein „upplýsingaóreiða“ um þetta mál.
Samfylkingarfólkið þrífst einmitt best með Pírötum í slíkri óreiðu og ýtir því undir hana hvenær sem tækifæri gefast og þá jafnan með þeim aðferðum að segjast vilja sporna gegn óreiðunni.
Orðrómur hafði verið um nokkurt skeið á kreiki um að Landsbankinn hefði í hyggju að kaupa TM og 6. febrúar 2024 var Þórdís Kolbrún spurð um málið í hlaðvarpi Þjóðmála sem nýtur hlustunar þúsunda manna. Í samtalinu þar sagði Þórdís Kolbrún að henni hugnaðist ekki að bankinn keypti TM. Bankasýslan tók eftir þessum ummælum og bókaði um þau á stjórnarfundi 8. febrúar 2024. Á þeim bæ töldu menn einsýnt að við þetta yrði ekki af þessum viðskiptum Landsbankans.
Nú kýs formaður Samfylkingarinnar að gera lítið úr þessum orðum ráðherrans með því að tala um hlaðvörp sem einhverja óverðuga boðleið. Raunar hefði mátt ætla að hneykslunargjörn Kristrún gagnrýndi ráðherrann fyrir að segja álit sitt á orðrómi. Vekti máls á því á þingi að ráðherrann gengi lengra en góðu hófi gegndi eða að stöðva ætti framgang þessa máls, væri það vilji Samfylkingarinnar. Ekkert slíkt gerðist. Engri fyrirspurn var beint til ráðherra.
Aðhald stjórnarandstöðu hefur gildi á ákveðnu stigi í ákvarðanaferli en ekki með nöldri þegar því er lokið. Það er alrangt að Þórdís Kolbrún hafi ekki kveikt viðvörunarljós þegar enn var aðeins orðrómur á kreiki um kaupin á TM. Meira mátti hún ekki gera að eigin frumkvæði á þeim tíma vegna sjálfstæðis BR og Landsbankans.
Í Landsbankanum réð hins vegar sá misskilningur bankastjórans að hann gæti farið sínu fram án tillits til eigendastefnu ríkisins og án þess að ræða við fulltrúa eigandans, Bankasýslu ríkisins. Morgunblaðið spyr eðlilega í leiðara í dag: „Af hverju er þessum bankastjóra með derring gagnvart ríkisstjórninni ekki falið að leita sér starfa annars staðar?“