16.3.2025 11:20

Orðspor fréttastofu í húfi

Fela á rannsóknarnefnd að fara yfir Samherjamálið allt frá því að fréttastofa ríkisútvarpsins hratt því af stað. Í raun snýr þetta mál frekar að ríkisútvarpinu en Samherja þegar litið er yfir gang þess.

Til athugunar er hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hvort fjalla eigi um beiðni Evu Hauksdóttur, lögmanns Páls Steingrímssonar skipstjóra, þess efnis að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í saumana á aðkomu ríkisútvarpsins að hinu svokallaða byrlunarmáli.

Málið snýst um ásakanir þess efnis að síma Páls hafi verið stolið á meðan hann lá milli heims og helju á sjúkrahúsi eftir honum var byrlað banvænum drykk. Farið hafi verið með símann í stöðvar ríkisútvarpsins við Efstaleiti og efni hans afritað til að afla efnis gegn útgerðarfélaginu Samherja þar sem Páll starfaði.

Veruleikinn er ævintýralegri en höfundi kemur til hugar við gerð skáldsögu.

Þræðir þessa máls hafa ekki verið raktir til enda. Það á upphaf í sjónvarpsþættinum Kveik sem ríkissjónvarpið sýndi í nóvember 2019 og var liður í stríði fréttastofu þess við Samherja. Stríðið styður þá ímynd af fréttastofunni að þar sé stundum frekar um að ræða innrætingu en miðlun óhlutdrægra frétta.

Imagesff

Fyrir dómstólum í Namibíu er rekið mál sem þar er þekkt undir heitinu Fishrot og má rekja til uppljóstrana Jóhannesar Stefánssonar sem starfaði fyrir Samherja í Namibíu. Miðað við hvernig sagt var frá málinu í upphafi hefði mátt ætla að Samherji hefði stundað ólögmætt athæfi í Namibíu. Vegna málsins var krafist framsals á nokkrum starfsmönnum Samherja en framvindan hefur orðið á þann veg að fyrir fáeinum dögum sagði dómari í því sambandi að framsalið væri greinilega ekki kappsmál saksóknara og ólíklegt að til ákæru gegn þessum mönnum kæmi.

Hér varð verulegt uppnám eftir að þessi þáttur Kveiks var sýndur. Var meðal annars gripið til þess að veita 200 milljónir aukalega í rannsóknir og varnir gegn peningaþvætti og skattsvikum í ársbyrjun 2020. Þá fékk héraðssaksóknari viðbótarfjármagn til að rannsaka Samherjamálið, eins og Fishrot er nefnt hér á landi, og skattayfirvöld áttu að geta bætt við sig mannafla tímabundið til að rannsaka „ýmis atriði sem þarfnast ítarlegrar skoðunar“.

Ríkisstjórnin birti ítarlega fréttatilkynningu 19. nóvember 2019 undir fyrirsögninni: Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Þegar hún er lesin núna er tilkynningin frekar til marks um uppnámið í þjóðfélaginu á þessum tíma en áhrif þess sem gerðist í Namibíu á orðspor íslensks atvinnulífs. Í tilkynningunni sagði meðal annars: „Þá verður hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.“ Þetta gekk eftir með aukafjárveitingu til embættisins í ársbyrjun 2020.

Rannsókn embættis héraðssaksóknara á þessu máli er ekki lokið. Vekur undrun að svo sé ekki, miðað við aukafé og þunga áherslu á að í þágu almannahagsmuna og virðingar íslensks atvinnulífs yrði úrlausn þessa máls flýtt.

Taki stjórnarfars- og eftirlitsnefnd ákvörðun um að setja á laggirnar rannsóknarnefnd vegna óska lögfræðings sem fjallar um byrlunina ætti þingnefndin að fela rannsóknarnefndinni að fara yfir Samherjamálið allt frá því að fréttastofa ríkisútvarpsins hratt því af stað. Í raun snýr þetta mál frekar að ríkisútvarpinu en Samherja þegar litið er yfir gang þess.