22.8.2020 11:00

Óraunhæfur Namibíu-samanburður

Ráðherra í Namibíu ákveður árlegt aflamark fyrir hverja tegund og úthlutar kvóta til handhafa nýtingarréttar eftir eigin hentisemi.

Skömmu eftir sjónvarpsþátt kom beiðni um skýrslu til alþingis frá þingmönnunum Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorsteini Víglundssyni í Viðreisn, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Olgu Margréti Cilia, Smára McCarthy í þingflokki Pírata, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Örnu Láru Jónsdóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Loga Einarssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Nirði Sigurðssyni í Samfylkingu og Andrési Inga Jónssyni utan flokka.

Þingmennirnir 18 óskuðu eftir því með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytti alþingi skýrslu „um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og í þeim skjölum sem RÚV fjallaði nýlega um í fréttaskýringaþættinum Kveik“.

Ráðherrann fékk að tillögu Viðreisnar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að vinna skýrsluna og var hún birt mánudaginn 17. ágúst þegar skrifstofa þingsins birti skjöl vegna þingfundar sem boðaður er fimmtudaginn 27. ágúst.

TACFiskvinnsla í Namibíu.

Í skýrslunni er bent á að upphæð veiðigjalda (kvótagjalda) er mishá í Namibíu eftir þjóðerni áhafnar, ríkisfangi skips og því hvort fiskurinn er unninn á landi eða sjó. Namibísk skip greiða lægstu veiðigjöldin, erlend skip með bækistöðvar í Namibíu greiða hærri gjöld, en erlend skip með bækistöðvar annars staðar greiða hæstu veiðigjöldin.

Einnig er munur á fyrirkomulagi aflaheimilda á Íslandi og í Namibíu. Á Íslandi er réttur handhafa til þess að nýta aflahlutdeild ótímabundinn. Rétturinn gengur kaupum og sölum á markaði og skip heldur sinni aflahlutdeild þar til hún er færð á annað skip eða seld öðru fyrirtæki. Hér ber að úthluta veiðiheimildum til aðila í samræmi við hlutdeild þeirra í viðkomandi fiskistofni

Í Namibíu er aflaheimild ekki eins traust og hér. Nýtingarrétti fisktegunda er úthlutað til fyrirtækja í 7, 10 eða 15 ár í senn. Fyrirtæki án nýtingarréttar fær engan kvóta. Ráðherra ákveður árlegt aflamark fyrir hverja tegund og úthlutar kvóta til handhafa nýtingarréttar eftir eigin hentisemi. „Þetta gerir ráðherra kleift að nota kvótann sem valdbeitingartæki gegn útgerðunum. Því er ekki hægt að treysta á að hægt sé að starfrækja útgerð til langs tíma án þess að vera í góðu sambandi við ráðherra,“ segir í skýrslunni.

Þegar litið er á þennan grundvallar mun á kerfum er hæpið svo að ekki sé meira sagt að unnt sé að rökstyðja afstöðu til fiskveiðistjórnunar hér á því sem gert er í Namibíu. Samt segir fyrsti skýrslubeiðandi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 18. ágúst:

„Skýrslan dregur líka fram það sem við þurfum að gera. Það þarf breytingar á kerfinu til að öðlast traust. Við erum ekki að tala um að kollvarpa því heldur um eðlilega, sanngjarna og réttláta uppfærslu á kerfinu.“

Því miður spyr blaðamaðurinn ekki hvað flokksformaðurinn eigi við með þessum orðum. Stendur vilji til þess að breyta því sem ákveðið var fyrir 30 árum þegar sköpuð var festa í íslenskum sjávarútvegi með ótímabundnum nýtingarrétti aflaheimilda og taka upp kerfi þar sem sjávarútvegsráðherrann tekur árlegar ákvarðanir um aflamark og kvóta einstakra útgerða?

Í grein í Morgunblaðinu í dag (22. ágúst) víkur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að Samherja/Namibíu skýrslunni og segir:

„Það má öllum vera ljóst að þessi framkvæmd [ráðherraúthlutunin í Namibíu] stenst ekki kröfur réttarríkis eða stjórnarskrár. Geðþóttavald á hér blessunarlega hvergi heima. Að þessu leyti eru stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi og í Namibíu, gerólík. Gjaldtaka af nýtingu sjávarauðlindar í þessum ólíku kerfum ríkjanna tveggja verður því seint samanburðarhæf.“

Sé neitað að horfast í augu við grundvallarmuninn á stjórnarháttum á Íslandi og í Namibíu skauta menn yfir allt sem gerir samanburð um stjórn fiskveiða milli landanna óraunhæfan.