10.10.2022 9:21

Ónóg landamæravarsla

Þar sem 98% fólks sem kemur hingað til lands fer um sömu landamærastöðina er undarlegt að ekki skuli hert eftirlit þar.

Umræður hér um útlendingamál hafa orðið jarðbundnari eftir ferð allsherjar- og menntamálanefndar alþingis til Danmerkur og Noregs. Að það þurfi ferð þangað til þess að íslenskir þingmenn líti þessi alvarlegu mál raunsærri augum en gert hefur verið um árabil, segir mikla sögu.

Í fréttum hefur komið fram að Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, taldi sig hafa meiri þekkingu á mannréttindamálum en danskir viðmælendur hennar.

Ummæli Helgu Völu um straum hælisleitenda frá Venesúela hingað til lands sýndu hins vegar að hún vissi ekkert um hvernig komu þessa fólks hingað var háttað. Hélt hún að það kæmi beint „að vestan“, það er með flugvélum frá Bandaríkjunum eða Kanada sem lenda hér við fyrstu Schengen-landamæri.

Þetta er einfaldlega rangt hjá þingmanninum. Í grein í Morgunblaðinu í dag (10. okt.) segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins:

„Um leið er til að mynda straumur fólks frá Venesúela (sem býr við hreina vinstristjórn) til Íslands orðinn sá næstmesti í Evrópu. – Ekki hlutfallslega heldur í rauntölum. Aðeins á Spáni, sem deilir tungumáli með Venesúela, eru umsóknirnar fleiri. Nú kemur þó fólk í gegnum Spán til að sækja um hæli á Íslandi. Og hví ekki? Ísland býður öðrum löndum fremur upp á það sem útlendingar kalla „asylum shopping“, þ.a. að leita að vænlegasta áfangastaðnum þótt viðkomandi hafi átt rétt á hæli annars staðar.“

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra:

„Það hefur komið fram í erlendum fjölmiðlum að vegabréf frá Venesúela fást keypt eftir ákveðnum leiðum. Það er áberandi að fólk kemur til landsins með nýútgefin, lögleg, venesúelsk vegabréf og það er fólk sem er kannski að þónokkrum hluta ekki frá Venesúela, augljóslega. Heldur er það frá öðrum löndum.“

Það væri í frásögur færandi ef íslenskir landamæraverðir eða starfsmenn útlendingastofnana væru þeir einu í heiminum sem ekki væri gerð tilraun til að blekkja í því skyni að smygla fólki yfir landamæri. Engu að síður tala þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar eins og svo sé.

EasypassSjálfvirk landamærahlið fyrir Schengen-svæðið koma æ víðar til sögunnar. Þau jafngilda alls ekki eftirlitsleysi.

Þar sem 98% fólks sem kemur hingað til lands fer um sömu landamærastöðina er undarlegt að ekki skuli hert eftirlit þar og gerðar nauðsynlegar skipulagsbreytingar til að styrkja og efla framkvæmd eftirlitsins. Þetta er nærtækasta skrefið sem unnt er að framkvæma strax. Flytja á daglega stjórn þessara mála til ríkislögreglustjóra, enda öryggi ríkisins í húfi, og ákæruvaldið til héraðssaksóknara.

Hér láta menn, til dæmis í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, eins og Schengen-aðildin sé undirrót vandans við landamærin. Greinarhöfundurinn er þó ekki betur að sér en svo að hann heldur Svisslendinga standa utan samstarfsins. Upplýsingafalsanir í þessa veru taka á sig margar myndir en þjóna allar sama tilgangi, að grafa enn frekar undan landamæravörslunni.

Schengen-aðildin styrkir allt eftirlit með aðgangi að alþjóðlegri samvinnu og gagnagrunnum. Það er hins vegar undir íslenskum yfirvöldum komið að nýta þau tækifæri til fulls. Þau hafa til dæmis ekki gerst aðilar að Evrópusamvinnu saksóknara sem er lykilþáttur í baráttu við alþjóðlega glæpastarfsemi og hryðjuverk.